Þegar um stundarfjórðungur var eftir af leiknum í gær fór boltinn út fyrir hliðarlínu hjá varamannabekk Union Berlin. Sané dreif sig að ná í boltann en Bjelica reif hann af honum.
Þegar Sané reyndi að ná boltanum af Bjelica ýtti stjórinn tvisvar í andlit leikmannsins. Fleiri blönduðu sér í málið og upp úr sauð á hliðarlínunni.
Dómari leiksins, Frank Willenborg, rak í kjölfarið Bjelica af velli og gaf Sané gult spjald. Bjelica róaðist ekkert við þetta og reifst og skammaðist þegar hann fór upp í stúku.
Eftir leikinn sagðist Bjelica skilja af hverju hann var rekinn út af en neitaði að biðja Sané afsökunar.
Bayern vann leikinn, 1-0, með marki Raphaëls Guerreiro í seinni hálfleik. Með sigrinum minnkaði Bayern forskot Bayer Leverkusen á toppi þýsku úrvalsdeildarinnar niður í fjögur stig.