Frá þessu greindu Íslandsmeistarar Vals fyrr í dag, fimmtudag. Þar ríkir mikil gleði með að Íris Dögg sé gengin í raðir félagsins. Er Íris Dögg hugsuð sem varaskeifa fyrir hina ungu Fanneyju Ingu Birkisdóttur. Smá munur er á reynslu en Íris Dögg á að baki 280 leiki í meistaraflokki á meðan Fanney Inga hefur spilað 47.
Af hverju er Íris Dögg komin í Val?
„Þð má segja að ég hef verið alveg ófeimin við að sækja mér þá reynslu sem ég þarf til að verða betri markmaður. Valur er félag með ótrúlega sögu í kvennaboltanum og ég skal alveg viðurkenna að ég sá mig aldrei þar en allt gerist að ástæðu og ég á mjög erfitt með að neita krefjandi áskorunum,“ sagði Íris Dögg í tilkynningu Vals.
Þá á hún enn eftir að ná einu markmiði á ferli sínum: „Auðvitað hefur maður alltaf einhver markmið og það er eitt stórt sem ég á eftir. Það er Evrópuleikur. Að fá það tækifæri að geta spilað svoleiðis leiki yrði draumur.“
Pétur Pétursson, þjálfari Íslandsmeistara Vals, er afar ánægður með viðbótina við leikmannahóp sinn.
„Íris hefur fyrir löngu sýnt það að hún er frábær markvörður og hefur gríðarlega reynslu með hátt í 300 leiki í meistaraflokki. Við erum afar ánægð með að fá hana til okkar út þetta tímabil og erum þess fullviss að hún geti miðlað sinni reynslu inn í hópinn til yngri leikmanna,“ sagði Pétur eftir að Íris Dögg var kynnt sem leikmaður Vals.
Valur hefur leik í Bestu deild kvenna þann 21. apríl þegar liðið fær Þór/KA í heimsókn.