Dregið verður í riðla í Kaupmannahöfn þann 21. mars næstkomandi, en EM 2026 fer fram í Danmörku, Svíþjóð og Noregi. Alls verður dregið í átta fjögurra liða riðla.
Líkt og þegar dregið var í undankeppni EM 2024 verður Ísland í efsta styrkleikaflokki þegar dregið verður í næsta mánuði. Undankeppnin hefst í haust og lýkur vorið 2025. Lokakeppnin fer svo fram frá 15. janúar til 1. febrúar 2026.
Lið úr sama styrkleikaflokki geta ekki dregist saman í riðla og því er ljóst að eins og síðustu ár sleppur Ísland við nokkra sterka andstæðinga. Þýskaland, Spánn, Ungverjaland, Króatía, Slóvenía, Portúgal og Holland eru í efsta styrkleikaflokki ásamt Íslendingum.
Alls munu 20 þjóðir vinna sér inn þátttökurétt á EM 2026 í gegnum undankeppnina, en Danmörk, Svíþjóð, Noregur og Frakkland hafa nú þegar fengið farseðilinn á mótið. Danmörk, Svíþjóð og Noregur sem gestgjafaþjóðir, en Frakkland sem ríkjandi Evrópumeistari.
1. styrkleikaflokkur:
Þýskaland, Spánn, Ungverjaland, Ísland, Króatía, Slóvenía, Portúgal, Holland.
2. styrkleikaflokkur:
Austurríki, Svartfjallaland, Serbía, Pólland, Tékkland, Norður Makedónía, Færeyjar, Grikkland.
3. styrkleikaflokkur:
Bosnía, Slóvakía, Belgía, Sviss, Rúmenía, Litáen, Úkraína, Ítalía.
4. styrkleikaflokkur:
Finnland, Ísrael, Eistland, Georgía, Tyrkland, Lúxemborg, Kósovó, Lettland.