Gular hríðarviðvaranir voru í gildi á Vestfjörðum, Ströndum og Norðurlandi vestra gærkvöldi og í nótt. Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur Vegagerðarinnar segir í pistli á Facebook-síðu sinni nú í morgun að veðrið hafi brostið á nokkuð skyndilega; meðalvindur hafi verið orðinn 22 metrar á sekúndu strax um kvöldmatarleytið. Snjókomunni var vel spáð segir EInar - en ekki vindinum á þeim slóðum þar sem mestu vandræðin urðu.
Jón Þór Víglundsson upplýsingafulltrúi Landsbjargar segir óveðrið hafa haft áhrif á ansi marga. Fyrst hafi fólk byrjað að lenda í vandræðum á Snæfellsnesi - en eins og áður segir var stærsta verkefnið við Vatnshorn í Húnaþingi vestra.
„Þar sem um áttatíu, níutíu bílar voru komnir í vandræði, fyrst og fremst vegna þess að stór bíll þveraði veginn. Það var stærsta verkefnið. Og þegar því var að ljúka fóru að berast fregnir af fólki í vandræðum á Holtavörðuheiði, þannig að björgunarsveitir fóru úr Húnavatnssýslunum í það og björgunarsveitir úr Borgarfirðinum líka. Og svo endaði nóttin á Laxárdalsheiði, þar sem fólk lenti líka í vandræðum,“ segir Jón Þór.

„Mér sýnist að heilt yfir hafi þetta verið um fimmtíu manns sem komu að þessum aðgerðum á einn eða annan hátt. Og fjöldi björgunartækja sem var notaður.“
Staðan var orðin svo slæm á Holtavörðuheiðinni að henni var lokað í gærkvöldi en svo opnuð á ný um níuleytið í morgun. Engar veðurviðvaranir eru lengur í gildi á landinu en Vegagerðin bendir vegfarendum á að mjög víða er vetrarfærð á vegum; snjóþekja, hálka og krapi.
Fram kemur í frétt RÚV að fimmtíu veðurtepptir ferðalangar hafi safnast saman í Staðarskála í Hrútafirði í gærkvöldi. Haft er eftir stöðvarstjóra að margir hafi verið skelkaðir og fundið sér hótelgistingu í nótt.
