Við ræðum við formann VR í kvöldfréttum Stöðvar 2 og förum yfir eldfima stöðu í kjaramálum sem nú er komin upp.
Minnst tíu fórust í gríðarlegum eldsvoða í fjölbýlishúsi í Valencia á Spáni í gær. Íslendingur búsettur í borginni segir íbúa í algjöru áfalli. Fjölskylda sem hún þekkir missti heimili sitt í brunanum. Við sýnum sláandi myndir frá eldsvoðanum, sem minnir marga á skelfilegan bruna í Grenfell-turni í London árið 2017.
Þá tökum við stöðuna á jarðhræringum á Reykjanesi. Fyrirvarinn á næsta eldgosi gæti orðið innan við hálftími að mati jarðeðlisfræðings. Merkin sem fylgst er með í aðdraganda eldgosa verði sífellt veikari eftir því sem atburðunum á svæðinu fjölgar.
Og þessu tengt: forstjóri Play segir fréttir heimsfjölmiðla af umbrotunum í Grindavík fyrr í vetur hafa valdið íslenskri ferðaþjónustu milljarðatjóni. Við ræðum við hann í kvöldfréttum.
Við kynnum okkur einnig deilur sem sprottið hafa upp um fyrirhugaða Fossvogsbrú, kíkjum á æfingu sérsveitarinnar niðri við Granda í Reykjavík í dag og verðum í beinni útsendingu úr Borgarleikhúsinu, þar sem stórsöngleikur verður frumsýndur í kvöld.