Þetta kemur fram í nýjustu fundargerð nefndarinnar, frá 21. mars síðastliðnum.
Málið rekur sögu sína til júlímánaðar 2020 þegar Heilbrigðiseftirliti Suðurlands barst starfsleyfisumsókn vegna framleiðslu á lífdísel frá félaginu Orkusjálfbærni ehf. Starfsleyfið var ekki afgreitt þar sem kröfum var ekki mætt.
„Engu að síður hefur umsækjandinn safnað miklu magni af matarolíu, ásamt annarri óskilgreindri úrgagnsolíu,“ segir í fundargerðinni.

Fram kemur að miðað við magn sé um að ræða olíu frá mismunandi atvinnurekstri. Olían sé nú geymd á þremur stöðum í sveitarfélaginu, og án heimilda.
„Athæfi þetta er þess eðlis að Heilbrigðisnefnd telur að sveitarfélagið, brunavarnir, heilbrigðiseftirlit og lögregla ásamt málsaðilum þurfi að koma að málinu,“ segir í fundargerðinni.
Þar kemur jafnframt fram að framkvæmdastjóra Heilbrigðiseftirlits Suðurlands hafi verið falið að fylgja málinu eftir.