Gæsluvarðhaldskrafa Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu var samþykkt af Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Gæsluvarðhald sem hann hefur sætt frá 8. mars var framlengt um fjórar vikur, til þriðja maí næstkomandi.
Þetta staðfestir Guðmundur Páll Jónsson, lögreglufulltrúi, í samtali við Vísi. Hann segir að rannsókn málsins sé svo gott sem lokið. Gagna frá tæknideild sé beðið og þegar þau berast verði málið sent Héraðssaksóknara til meðferðar.
„Það eru svo góðar upptökur af þessu,“ segir hann.
Missti vitið þegar hann fékk ekki bílpróf og hótaði að sprengja leikskóla
Sem áður segir hefur Kourani ítrekað komist í kast við lögin. Í nýjasta dóminum yfir manninum segir að hann hafi þrisvar áður verið dæmdur fyrir hegningarlagabrot.
Með þeim dómi Héraðsdóms Reykjaness var hann dæmdur til fjórtán mánaða fangelsisvistar og hann hafði einu sinni verið dæmdur til eins árs refsingar.
Viku eftir árásina í OK Market var Kourani meðal annars dæmdur fyrir líkamsárás með því að hrinda manni sem reyndi að róa hann niður eftir að starfsmaður Frumherja neitaði að veita honum ökuréttindi án þess að hann tæki bílpróf.
Í sama málinu var hann sakfelldur fyrir brot gegn valdstjórninni og að gabba lögreglu, og að reyna að gabba lögreglu, með því hafa sent tvo tölvupósta að kvöldi 23. febrúar árið 2023. Þeir hljóða svo:
„Eins og ríkið veit mun sprengjan springa í dag. Segið lögreglunni að sprengjan sé með gildrum í fimm kílómetra radíus. Vitið til, ef þið komið nálægt mér mun ég bjóða ykkur upp á allt það sem ég hef sankað að mér í lengri tíma. Kveðja, maðurinn sem meinar það sem hann segir.“
„Staðurinn er morandi í sprengjum, höfuð ykkar og hjörtu barna ykkar munu springa.“
Hótanir Kouranis urðu meðal annars til þess að ráðhúsið í Reykjanesbæ var rýmt.
Hefur ofsótt vararíkissaksóknara og hrakti fjölskyldu úr landi
Kourani hefur helst vakið athygli fjölmiðla fyrir að ofsækja Helga Magnús Gunnarsson, varahéraðssaksóknara. Helgi Magnús greindi frá því á Facebook þegar fréttir bárust af stunguárásinni að gerandinn væri sá hinn sama og hefði gert honum lífið leitt síðustu ár.
Helgi Magnús bar fyrir dómi á sínum tíma að maðurinn hafi kært annan hælisleitanda til lögreglu en málið hafi verið fellt niður, hann hafi staðfest niðurfellinguna fyrir hönd embættis síns. Skömmu síðar hafi sér borist fjöldi tölvupósta frá fleiri en einu netfangi og efni þeirra hafi bent til þess að þeir væru frá manninum.
„I will kill you!“
„This is our last messaga … Remember if Kourani dies … you and your family will die … clans,“ segir í einum skilaboðunum en sambærileg skilaboð voru fleiri en eitt.
Þá var maðurinn einnig ákærður fyrir að hafa komið að skrifstofum ríkissaksóknara og verið þar með háreysti. Þegar hann hafi séð Helga Magnús hafi hann hrópað „I will kill you!“ eða „Ég mun myrða þig!“ á íslensku.
Þá var greint frá því skömmu eftir stunguárásina að eigandi OK Market hefði sent fjölskyldu sína úr landi af ótta við Kourani.
Einn starfsmannanna sem varð fyrir árásinni er eigandi OK Market, Mustafa Al Hamoodi. Hann segir Kourani hafa áreitt hann stanslaust í sex ár fram að árásinni.
„Ég þekki hann ekki en ég var að vinna sem túlkur árið 2018. Þá fór ég með öðrum manni sem var að kæra þennan mann. Ég var bara að túlka. Síðan þá hefur hann alltaf elt mig. Sendir mér hótanir í tölvupósti og á Facebook. Hann hefur tvisvar komið heim til mín, gert skemmdir á tveimur bílum, ég er búinn að kæra hann fimm sinnum en lögreglan segist ekkert geta gert því þeir geta ekki sannað að hann sé að hóta mér því hann breytir um netfang,“ segir Mustafa.