Sigurbergur er tvítugur, varnar- og miðjumaður, sem leikið hefur sextán leiki fyrir yngri landslið Íslands.
Hann hafði ekkert spilað með Stjörnunni í upphafi þessarar leiktíðar og Fylkismenn náðu að tryggja sér starfskrafta hans í síðustu viku. Ekki var um lánssamning að ræða og skrifaði Sigurbergur undir samning við Fylki sem gildir til ársloka 2027.
Sigurbergur lék svo allan leikinn í bikarsigri Fylkis á Hetti/Hugin en fékk ekki að vera í leikmannahópnum gegn Stjörnunni í gær.
Það var vegna samkomulags félaganna, eftir því sem fram kom á Fótbolta.net. Slík samkomulög hafa oft tíðkast þegar um lánssamninga er að ræða en svo var ekki í tilviki Sigurbergs.
„Mjög undarlegt allt saman“
Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Fylkis, var ósáttur við að geta ekki nýtt Sigurberg í gær, í leik sem tapaðist afar naumlega, 1-0.
„Það var heiðursmannasamkomulag svo þessi samningur myndi ganga í gegn eins skrítið og það nú er, þetta er mjög undarlegt allt saman. En svona er þetta. Ég stend ekki í því að gera samning milli liðanna. Að sjálfsögðu hefði ég viljað nota hann,“ sagði Rúnar Páll við Fótbolta.net eftir leik í gær.
Sigurbergur gæti hins vegar spilað sinn fyrsta deildarleik fyrir Fylki á sunnudaginn þegar liðið sækir Fram heim. Hann lék í fyrra sína fyrstu leiki í efstu deild, fyrst átta fyrir Stjörnuna og svo sjö sem lánsmaður hjá HK. Árið áður var hann að láni frá Stjörnunni til Gróttu og lék átján leiki í Lengjudeildinni.