Þingmennskan gefur 120 þúsund evrur í hönd á ársgrundvelli en sex þingmenn fá meira greitt fyrir hitt starfið sitt. Tekjuhæsti þingmaðurinn fékk greiddar um það bil þrjár milljónir evra vegna fasteignatengdra viðskipta og annar tvöfaldaði laun sín sem lögmaður hjá fyrirtæki.
Fjöldi þingmanna situr í stjórnum fyrirtækja og hafa tekjur af því að flytja erindi og fyrirlestra.
Það voru samtökin Transparency International EU sem tóku upplýsingarnar saman en samtökin segja aukastörfin skapa hættu á hagsmunaárekstrum.
Samkvæmt gögnunum tilheyrðu níu af 20 tekjuhæstu þingmönnunum Evrópska þjóðarflokknum, sex þjóðernisflokkum, tveir sósíalistaflokkum, tveir frjálshyggjuflokkum og þá var einn sjálfstæður.
Efstur á listanum var litháíski þingmaðurinn Viktor Uspaskich, sem var látinn fjúka úr Evrópuflokknum Renew árið 2021 eftir að hann kallaði hinsegin og trans fólk „perverta“.