Örvar segist hafa rekið augun í auglýsingu um sölu á Grillhúsinu í Borgarnesi um áramótin en þá hafði hann starfað sem rekstrarstjóri staðarins í nokkra mánuði.
„Ég sá bara tækifæri til að stimpla mig inn í bæinn,“ segir Örvar. Hann hafi búið í Borgarnesi sem krakki.
„Það er leiðinlegt hvernig þróunin hefur verið. Borgnesingar hafa sótt alla afþreyingu út úr bænum. En ég ætla að reyna að snúa þessu við,“ segir Örvar.
Pílusalur opnaður
Spenna er fyrir nýjum pílusal sem Örvar hyggst opna í öðru rými í húsinu. Opnunin er handan við hornið. Þá stendur hann fyrir alls konar viðburðum og hefur raunar gert undanfarna mánuði. Þar ber hæst pöbbkviss, trúbadorar og síðast en ekki síst blúshátíð þar sem fjórar hljómsveitir tróðu upp. Andrea Gylfadóttir blúsdrottning á meðal flytjenda.

„Það hefur verið fín mæting á alla þessa viðburði, hvort sem það er pöbbkvis, trúbador eða blús. Það þarf greinilega bara að vera eitthvað til staðar fyrir fólkið og þá mætir það.“
Grillhúsið í Borgarnesi var auglýst til sölu ásamt tveimur veitingastöðum Grillhússins í Reykjavík um áramótin. Eigendur TGI Fridays keyptu reksturinn í Reykjavík en Örvar fer fyrir hópnum sem keypti útibúið í Borgarnesi.
Opið í annan endann
„Þetta er alveg dýrt. Miklu meira en ein fjölskylda ræður við. Ég þurfti að finna mannskap með mér og fann þá. Mjög góða og reynslumikla menn.“
Staðurinn opnar dyr sínar á hverjum degi klukkan ellefu og Örvar ætlar að hafa opið þangað til fólk er hætt að mæta.
„Það fyrsta sem ég gerði var að ég tók út að það loki klukkan níu eða tíu. Það er algjör óþarfi að vera með sex starfsmenn í húsi og ekkert að gerast. En svo ef það er eitthvað að gerast þá vil ég hafa opið,“ segir Örvar.
Þó ekki lengur en til eitt eins og tilskilin leyfi segja til um. En það er eitt alveg ljóst í huga Örvars:
„Borgarnes verður staðurinn í sumar.“