Skoðun

Nýtt sveitar­fé­lag

Halla Signý Kristjánsdóttir skrifar

Það er ekki á hverjum degi að nýtt sveitarfélaga lítur dagsins ljós. Nú um helgina verður því fagnað á Vestfjörðum þegar Vesturbyggð og Tálknafjarðarhreppur sameinast. Þar sem Hrafna- Flóki settist að og gaf landinu nafnið Ísland og annar sagði að þar drypi smjör af hverju strái.

Með sameiningunni fækkar sveitarfélögum á Vestfjörðum úr níu í átta. Flest hafa sveitarfélögin þar vestra líklega verið 37 þegar byggðin var dreifð um allan kjálkann en fóru fækkandi upp úr 1960 þegar þéttbýli stækkuðu, fólki fækkaði og byggð varð strjálbýlli.

Vor fyrir vestan

Það má svo vissulega segja að það hafi verið byr í seglum samfélaga á Vestfjörðum undanfarin áratug. Ef horft er til síðustu þriggja áratuga má segja að það ríki meiri bjartsýni og þróttur nú en skynja mátti í upphafi þessarar aldar. Uppbygging nýrra atvinnugreina líkt og fiskeldis og ferðaþjónustu hafa komið inn með nýjan kraft og afleidd störf og íbúatalan vex á ný. Það hefur sannarlega átt við á Sunnanverðum kjálkanum.

Það skiptir máli í uppsveiflu að sveitarfélög taki höndum saman og horfi í sömu átt þegar vel gengur, nýti kraftinn til að horfa til framtíðar. Þannig sköpum við framtíð fyrir komandi kynslóðir á svæðinu.

Samgöngubætur mikilvægar

Við sameiningu sveitarfélaga fækkar þó ekki kílómetrum á milli staða, sama hvað við leggjum sterkan ljósleiðara. Á síðust árum hefur verið lyft grettistaki í samgöngumálum á Vestfjörðum og má líta marga áratugi aftur til að finna sambærilegan framkvæmdakraft.

Svo markmiðum um meiri samvinnu sveitarfélaga verði náð þurfa samgöngur að vera greiðar og öruggar. Víða er úrbóta þörf með tilliti til byggðaþróunar og daglegrar vinnusóknar. Við gerum kröfur um að samgöngur á svæðinu séu skilvirkar, öruggar og heilsárs. Um þetta getum við verið sammála. Fleiri jarðgöng þurfa að koma til, jarðgöng undir Mikladal og Hálfdán eru forsenda að bættu samfélagi og að sameiningar gangi vel fyrir sig.

Ég óska íbúum á Sunnanverðum Vestfjörðum til hamingju með nýtt sveitarfélag, já það er vor fyrir vestan!

Höfundur er þingmaður Framsóknar.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×