Skoðun

Ein­stakt tæki­færi til listnáms í Mynd­lista­skólanum í Reykja­vík fyrir ein­stak­linga með þroskaskerðingu

Björg Jóna Birgisdóttir skrifar

Myndlistaskólinn í Reykjavík býður fjölbreytt listnám á framhaldsskólastigi og nám á fjórða hæfnisstigi sem brúar bil milli framhaldsskóla- og háskólastigs. Einnig hefur skólinn í allmörg ár boðið einstaklingum með þroskaskerðingu eins árs diplómanám. Í listsköpun birtast oft hæfieikar einstaklinga sem hið hefðbundnda skólakerfi hefur ekki náð að draga fram.

Lilja Dögg Birgisdóttir, systir mín varð þeirrar gæfu aðnjótandi að hefja eins árs myndlistarnám fyrir einstaklinga með þroskaskerðingu við Myndlistaskólann í Reykjavík síðastliðið haust. Hún hafði ekki tækifæri til framhaldsnáms á sínum tíma þar sem þroskahömlun hennar stóð í vegi fyrir því. Hún hefur lengi unnið í Bjarkarási og Vinnustofunni Ás þar sem fólki með skerta starfsgetu er sköpuð vinnuaðstaða sem sniðin er að þörfum þess og getu. Fyrir tæpum tveimur árum fór Lilja Dögg á myndlistarnámskeið hjá Fjölmennt, símenntunar- og þekkingarmiðstöðinni. Þá kom í ljós að hún hafði óskaplega gaman að því að mála og í framhaldi af því var henni hjálpað við að sækja um nám í Myndlistaskólann í Reykjavík. Hún var því 52 ára þegar hún loks fékk tækifæri til frekari framhaldsmenntunar.

Námið fyrir einstaklinga með þroskaskerðingu er einstakt námstækifæri fyrir þennan hóp. Áslaug Thorlacius, skólastjóri Myndlistaskólans í Reykjavík sagði í viðtali við Morgunblaðið fyrir nokkrum árum að tækifæri til menntunar hafi gríðarlega þýðingu fyrir alla og að listnám sé mannbætandi. Með því að bjóða einstaklingum með þroskaskerðingu listnám, þá öðlast nemendur ekki aðeins meiri færni í myndsköpun heldur einnig að greina og tjá sig um flókna hluti eins og listaverk og gagnrýna eigin verk á uppbyggilegan hátt. Munurinn á að kenna fólki með þroskaskerðingu og öðrum er að geta þeirra þroskaskertu er mjög ólík og mismunandi og reynt er að taka mið af getu hvers og eins. Í náminu er til dæmis lögð áhersla á teikningu,málun, litafræði, ljósmyndun, vídeógerð, leirlist og hugmyndavinnu.

Lilja Dögg var full eftirvæntingar og spennt þegar hún hóf námið. Hún hefur einfaldan orðaforða, getur ekki tjáð sig um flókna hluti, les ekki og skrifar ekki. Hún þurfti því aðstoð og stuðning við að stunda námið sem ég ásamt starfsfólki á sambýlinu í Víðihlíð þar sem hún býr veittum henni. Kennarar námsbrautarinnar hafa fjölbreyttan listbakgrunn, menntun og reynslu og hafa lagt áherslu á að hver og einn njóti sín í náminu á sínum eigin forsendum. Á síðustu vikum námsins unnu nemendur að lokaverkefnum sínum og þá lögðu kennararnir alúð, þolinmæði og metnað sinn í að styrkja nemendurnar, ræða úrvinnslu verkefnanna, efnismeðferð og fleira. Og það voru glaðir og stoltir nemendur sem sýndu verkin sín á nemendasýningu skólans í vor.

Það eru miklu færri námstækifæri fyrir þroskaskerta heldur en þau okkar sem teljast heilbrigð þrátt fyrir að jafnrétti til náms og jöfn tækifæri séu mikilvæg leiðarstef þeirrar menntastefnu sem ríkjandi er. Því skiptir máli að hlúa að og styrkja þau námsúrræði sem standa þroskaskertum til boða. Þar hefur Myndlistaskólinn í Reykjavík afar dýrmæta þekkingu og reynslu. Það er jafnframt nauðsynlegt að þessi hópur einstaklinga fái enn fleiri tækifæri á næstu árum.

Lilja Dögg hefur notið sín í náminu, hún elskar að mála og eins og einn kennarinn hennar sagði þá hverfur hún inn í myndirnar þegar hún málar. Svo mikil eru hughrif hennar og einbeiting að hún gleymir stað og stund. Það hefur verið einstakt að sjá hvað þessi vetur hefur verið valdeflandi fyrir Lilju Dögg á mörgum sviðum. Hún hefur styrkst mjög í listsköpun sinni, lært nýjar aðferðir, hún er öruggari og víðsýnni. Í útskriftarathöfninni 24. maí síðastliðinn sagði Áslaug skólastjóri að listmenntun veitti ýmis tækifæri og væri meðal annars tákn um þekkingu sem nýtist um ókomna tíð. Með það veganesti heldur Lilja Dögg ótrauð áfram í sinni listsköpun í framtíðinni.

Hægt er að sækja um námið á heimasíðu Myndlistarskólans í Reykjavík.

Höfundur er fyrrverandi námsstjóri og námsráðgjafi við Listaháskóla Íslands.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×