„Það er ógeðslega gaman að þetta hafi sprungið svona út,“ segir Matthías sem var að sjálfsögðu inni í stúdíói þegar Vísir náði af honum tali. Hann segist hafa verið nýfarinn heim þegar fyrstu tölur bárust og missti því af því þegar Halla steig sigurdansinn við lagið. Hlusta má á lagið neðst í fréttinni.
Matthías er enginn nýgræðingur þegar kemur að því að semja tónlist og meðal annars pródúserað með þekktum tónlistarmenn líkt og Daniil og Jóa Pé. Þá á hann ekki langt að sækja hæfileikana en landsmenn hafa þekkt systur hans tónlistarkonuna GDRN um margra ára skeið.
Halla T. steig á svið í Grósku við trylltan fögnuð stuðningsmanna sinna og lag Matthíasar undir.
Samdi lagið í hjáverkum í Danmörku
„Við félagi minn sem var í kosningateyminu hjá Höllu vorum að spjalla í símann þegar hann fékk hugmyndina, hann hefur líka áhuga á tónlist og spurði hvort ég gæti ekki prufað að remixa eitthvað house mix með því sem Halla hefur sagt,“ útskýrir Matthías.
Hann segist á þessum tíma hafa verið á leiðinni til Danmerkur. Eðli málsins samkvæmt því haft lítinn tíma til að huga að því og eiginlega verið á því að hann nennti því ekki. Þá hafi hann ekki einu sinni verið viss um að hann myndi kjósa hana.
„Svo heyrði hann í mér aftur á meðan ég var í Danmörku og ég henti bara í mixið, örugglega bara á einhverjum tuttugu mínútum eða eitthvað,“ segir Matthías hlæjandi. Eðli málsins samkvæmt sé hann því himinlifandi með vinsældir lagsins en Matthías segist á endanum hafa ákveðið að kjósa Höllu.
„Ég tók hlutlausa ákvörðun, jafnvel þó ég hafi gert remixið þá leist mér einfaldlega bara best á hana. Það sem ég fílaði við hana, fyrir utan boðskapinn, var að hún leyfði unga fólkinu sem var að hjálpa henni í framboði að gera sitt. Það er ekkert hvaða forsetaframbjóðandi sem er til í eitthvað house lag.“
Ætlaði að leggja tónlistina á hilluna
Matthías var sjálfur staddur í Grósku síðastliðið laugardagskvöld en var farinn heim stuttu áður en fyrstu tölur bárust í hús. „En ég heyrði að það hefði verið spilað mjög mikið!“
Hann segist aldrei hafa stefnt á tónlistina, hann hafi æft á gítar þegar hann var yngri í níu ár en svo tilkynnt mömmu sinni að hann væri kominn með nóg og að hann ætlaði sér ekki að verða tónlistarmaður.
„Þá hafði ég fengið ógeðslega mikinn áhuga á tölvum og forritun. Síðan fattaði ég auðvitað að það er hægt að pródúsera tónlist í tölvu og fór út í það og kaldhæðnislega varð ég svo tónlistarmaður jafnvel þó ég hafi sagt skilið við hana.“