Skoðun

Svik VG í jafn­réttis­málum

Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir skrifar

Á vettvangi alþjóðamála er litið til Íslands sem fyrirmyndar hvað varðar löggjöf jafnréttismála, áherslu stjórnvalda á að sinna frumkvæðisskyldunni á sviði jafnréttismála og árangur af framkvæmd verkefna. Við formennsku Íslands í Evrópuráðinu vakti áhersla á jafnréttismál kynja mikla athygli og sóst var eftir aðkomu Íslands að ritun nýrrar kynjajafnréttisstefnu Evrópuráðsins, sem gildir til ársins 2029. Stefna Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs byggir á fjórum grunnstoðum. Meðal þeirra er kvenfrelsi og félagslegt réttlæti. Jafnréttismál eru því sannarlega málaflokkur VG.

Í núverandi ríkisstjórnarsamstarfi hafa mikilvægar breytingar verið gerðar á lögum sem miða að auknu jafnrétti. Breytingar á lögum um fæðingarorlof, þar sem réttindi feðra og mæðra voru jöfnuð til að stuðla að jafnari ábyrgð foreldra á umönnun barna. Fyrrverandi forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir, innleiddi endurskoðun jafnréttislaga sem skýrir hlutverk Jafnréttisstofu og festir í sessi markvissa vinnu við jöfnun launa með jafnlaunavottun og jafnlaunastaðfestingu.

Með lögum um jafna meðferð á vinnumarkaði hefur verið kveðið á um bann við mismunun á vinnumarkaði á grundvelli kynþáttar, þjóðernisuppruna, trúar, lífsskoðunar, fötlunar, skertrar starfsgetu, aldurs, kynhneigðar, kynvitundar, kyneinkenna eða kyntjáningar. Með lögum um jafna meðferð einstaklinga óháð kynþætti og þjóðernisuppruna er kveðið á um meginreglu um jafna meðferð einstaklinga á öllum sviðum samfélagsins, utan vinnumarkaðar.

Með lögum um þungunarrof var sjálfsforræði kvenna sem óska þungunarrofs virt og Ísland er nú í fyrsta skipti fullgildur aðili að Istanbúl-samningnum. VG hefur styrkt stuðningskerfi fyrir þolendur kynbundins ofbeldis og stutt lagasetningu og aðgerðir sem miða að því að draga úr kynbundnu ofbeldi og bæta þjónustu við brotaþola. Forvarnaráætlun gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi meðal barna og ungmenna var samþykkt árið 2021 og framkvæmd hennar hefur gengið vel. Margt fleira mætti telja til.

Fullyrðingar um að VG hafi brugðist konum eða svikið kjósendur sína í jafnréttismálum eru því óréttmætar.

Höfundur er starfandi varaformaður Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×