Í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands segir að lægðin austur af landinu fjarlægist nú smám saman og dragi úr vindi og úrkomu á austanverðu landinu og gular viðvaranir séu að renna út núna í morgunsárið.
Austanlands hafi mælst norðvestan hvassviðri eða stormur, en mesti vindhraði hafi mælst þrjátíu metrar á sekúndu í Papey í gær og hviður hafi farið yfir fjörutíu metra á sekúndu.
Á eftir lægðinni komi skammlífur hæðarhryggur inn á landið seinna í dag með björtu og hægu veðri víða og allt upp í tuttugu stiga hita sunnanlands.
Hryggurinn ætli þó að staldra stutt við því næsta lægð nái landi á morgun úr vestri og byrji að rigna sunnan- og vestanlands. Þó verði víða bjart veður norðaustantil og hiti upp í 22 stig þar.
Eftir svalan norðvestanvindinn með rigningu og jafnvel slyddu síðasta sólarhringinn verði því mikill viðsnúningur fyrir íbúa og gesti Norðausturlands um helgina.