Drengurinn kom í heiminn 15. júlí síðastliðinn og fyrsta barn parsins.
Sandra og Daníel eru búsett í Þýskalandi þar sem þau eru bæði atvinnumenn í handbolta.
Sú fyrsta sem verður ólétt í liðinu
Sandra leikur með þýska úrvalsdeildarliðinu Metzingen og er ein fremsta handboltakona Íslands og spilar lykilhlutverk í íslenska landsliðinu. Þá var hún valin handboltakona ársins 2022.
„Strax og ég pissaði á prófið og sá að ég var ólétt þá fór smá um mann, úff, af því að það hefur engin í liðinu [Metzingen] eignast barn. Ég er sú fyrsta sem verður ólétt. Það er algengt í Þýskalandi að konur spili til þrítugs og fari svo í barneignir, á meðan að við í Skandinavíu eignumst frekar börn og spilum svo áfram,“ sagði Sandra í viðtali við Stöð 2 sport í byrjun árs. Liðfélagar hennar tóku þó vel í þær fréttir að hún væri orðin ólétt.
Daníel leikur með HBW Balingen-Weilstetten.
Daníel hefur verið í atvinnumennsku síðan 2019 en þá yfirgaf hann Hauka og gekk til liðs við Ribe-Esbjerg í Danmörku. Alls hefur hann leikið 39 landsleiki með A-landsliði karla í handbolta og skorað í þeim 11 mörk.