Ekki blæs byrlega við upphaf verslunarmannahelgar í Vestmannaeyjum þar sem fjöldi fólks er saman kominn til að skemmta sér. Þar er spáð austan fimmtán til tuttugu metrum á sekúndu sem gætu valdið usla á tjaldsvæðum.
Einnig varar Veðustofan við snörpum vindhviðum og hvassviðri undir Eyjafjöllum og norðaustan og austan hvassviðri vestan Öræfa. Veðrið má rekja til alldjúprar lægðar sem hringsólar fyrir sunnan land og sendir austan- eða norðaustan kalda eða strekking yfir landið.
Í öðrum landshlutum er reiknað með hægara vindi og vætu með köflum en yfirleitt þurru og mildu vestanlands og í innsveitum á Norðurlandi.
Á morgun er reiknað með austankalda eða strekkingin og dálítilli rigningu á sunnanverðu landinu en þurru að kalla norðan heiða. Önnur lægð nálgast landið sunnan úr hafi annað kvöld og þá má búast við að hvessi talsvert úr norðaustri með samfelldri rigningu suðaustanlands.
Ekki tekur betra við á frídegi verslunarmanna á mánudag. Þá er spáð leiðindaveðri með hvassri norðaustanátt og rigningu um allt land. Þeim sem ætla að vera á ferðinni er bent á að fylgjast vel með veðurspám og viðvörunum.