Að öðrum ólöstuðum átti Renars Uscins stærstan þátt í því að Þýskaland vann Frakkland, 35-34, í átta liða úrslitum á Ólympíuleikunum í París í fyrradag. Hann skoraði fjórtán mörk, þar á meðal jöfnunarmarkið ótrúlega sem tryggði Þjóðverjum framlengingu og sigurmarkið þegar örfáar sekúndur voru til leiksloka.
Uscins, sem er hægri skytta líkt og Petersson, hefur farið hamförum í Frakklandi og er þriðji markahæsti leikmaður leikanna með 42 mörk. En hver er þessi nýjasta stjarna þýsks handbolta?
Af handboltaættum
Á meðan Petersson er frá Ríga, höfuðborg Lettlands, fæddist Uscins þann 22. apríl í bænum Cesis. Þar búa aðeins tæplega fimmtán þúsund manns.
Uscins er sonur Armands Uscins, fyrrverandi landsliðsmanns Lettlands í handbolta. Armands þjálfaði einnig lettneska landsliðið á árunum 2017-20.
Fjölskylda Uscins fluttist til Þýskalands 2005, þegar hann var þriggja ára. Hann hóf handboltaferilinn hjá Magdeburg og lék með yngri liðum félagsins.

Seinni hluta tímabilsins 2020-21 var Uscins lánaður til Bergischer þar sem hann lék með Arnóri Þór Gunnarssyni. Uscins skoraði 23 mörk í 22 leikjum með Bergischer í þýsku úrvalsdeildinni áður en hann sneri aftur til Magdeburg.
Þar voru tækifærin af skornum skammti enda Magdeburg einstaklega vel mannað í stöðu hægri skyttu með þá Ómar Inga Magnússon og Kay Smits.
Fann samastað í Hannover
Uscins lék aðeins tvo leiki fyrir aðallið Magdeburg og 2022 færði hann sig um set til Hannover-Burgdorf þar sem hann byrjaði að blómstra.

Tímabilið 2022-23 skoraði Uscins 64 mörk í 27 deildarleikjum með Hannover-Burgdorf sem endaði í 6. sæti. Á síðasta tímabili bætti hann um betur og skoraði 93 mörk í 27 deildarleikjum. Hannover-Burgdorf lenti í 7. sæti.
Vanur árangri með landsliðum
Meðfram þessum uppgangi með félagsliðum sínum var Uscins að gera góða, eða raunar frábæra, hluti með yngri landsliðum Þýskalands.
Hann er hluti af gríðarlega sterkum 2002-árgangi hjá Þýskalandi. Meðal annarra í honum eru markvörðurinn David Späth, sem er einnig kominn í A-landsliðið og átti stóran þátt í sigrinum á Frökkum með fjórtán vörðum skotum, og miðjumaðurinn Nils Lichtlein. Línumaðurinn Justus Fischer er svo ári yngri en þremenningarnir.
Uscins og félagar urðu Evrópumeistarar U-19 ára 2021 og svo heimsmeistarar U-21 ára í fyrra. Uscins var fyrirliði þýska liðsins á HM á síðasta ári og skoraði 31 mark á mótinu.
Fékk traustið hjá Alfreð
Frammistaða Uscins með yngri landsliðum Þýskalands fór ekki framhjá vökulu auga Alfreðs Gíslasonar. Hann valdi Uscins í A-landsliðið í fyrra og hann lék sinn fyrsta landsleik gegn Svíþjóð í apríl.

Alfreð valdi Uscins einnig í þýska hópinn fyrir EM á heimavelli í byrjun þessa árs. Uscins lék ekki mikið framan af mótinu en tækifærunum fjölgaði eftir því sem leið á það. Hann átti til að mynda afar góða leik gegn heimsmeisturum Danmerkur í undanúrslitunum. Uscins skoraði þar fimm mörk í 26-29 tapi og gerði svo átta mörk í bronsleiknum þar sem Þýskaland tapaði fyrir Svíþjóð, 34-31.
Síðan á EM hefur Uscins verið aðalskytta þýska landsliðsins hægra megin og hann hefur heldur betur staðið undir trausti Alfreðs. Frammistaða hans á Ólympíuleikunum hefur verið stórkostleg og varnir andstæðinganna fá ekkert við hann ráðið.

Uscins er ekki mikill varnarmaður og Alfreð notar skyttuna Christoph Steinert í hægra horninu til að geta hvílt Uscins í vörninni. Hann á þá næga orku fyrir sóknina og hefur nýtt hana til hins ítrasta. Uscins er ekki sá hávaxnasti (1,89 metrar á hæð) en er með frábæra skottækni, snöggur að skjóta og gríðarlega áræðinn. Þá nýtir hann skotin sín vel en á Ólympíuleikunum er hann með 74 prósent skotnýtingu sem er frábært fyrir skyttu.
Þjóðverjar mæta Spánverjum í undanúrslitum Ólympíuleikanna í dag og ef Uscins heldur áfram að spila eins og hann hefur gert undanfarna daga getur þýska þjóðin leyft sér að dreyma um fyrsta úrslitaleikinn á Ólympíuleikunum í tuttugu ár.