Skoðun

Eru fram­kvæmdir í Salt­vík loftslagsvænar?

Ólafur S. Andrésson skrifar

Framkvæmdir Yggdrasils í Saltvík hafa þau meginmarkmið að binda koltvísýring (CO2) úr lofti og vinna þannig gegn lofslagshlýnun. Færa má rök fyrir því að framkvæmdirnar geri svo alls ekki, heldur þvert á móti! Auk þess valda þær skaða á verðmætri náttúru.

Jarðrask losar kolefni

Gróskumikill móajarðvegur er með bundið kolefni sem jafngildir um 550 tonnum af CO2 á hektara (1) og plæging og umturnun jarðvegsins veldur losun á því kolefni. Við plægingu, líkt og sjá má á fréttamyndum frá Saltvík, losnar um 30% af jarðvegskolefni sem CO2 (2). Því má ætla að meira gæti losnað af kolefni við plæginguna, um 80 tonn/ha, eða sem nemur tíunda hluta þess sem skógurinn gæti bundið [innskot blaðamanns: sjá athugasemd neðst í grein] (3)

(1)Rit LbhÍ nr. 133, Loftslag, kolefni og mold eftir Ólaf Arnalds og Jón Guðmundsson 2020.

(2)Samanburður á Skógarkolefni og UK Woodland Carbon Code – Kolefnislosun vegna jarðvinnslu, eftir Sigfús Bjarnason, birt á natturuvinir.is 2023.

(3)Skógarkolefnisreiknir Skógræktarinnar.

Sól vermir dökkt yfirborð meira en ljóst

Hluti sólgeislunar sem fellur á yfirborð jarðar endurkastast til baka og veldur lítilli hlýnun. Hversu mikið endurkastið er ræðst af yfirborð jarðarinnar. Við ræktun barrskóga á norðlægum slóðum geta orðið breytingar á endurkasti sólgeislunar sem vega upp loftlagsávinning kolefnisbindingar.

Um þetta efni hefur verið fjallað í vísindaritum, en samantekt má finna á vefnum natturuvinir.is og staðfærslu til íslenskra aðstæðna í grein minni Barrtré, snjóþekja og hitafar á sama vef frá 2023. Mólendi er með meðal- eða mikið endurkast en barrskógur með lítið en sogar í sig sólgeislunina. Staðgóðar upplýsingar um ísog og endurkast (albedo) á Saltvíkursvæðinu liggja ekki fyrir, en breytingarnar má áætla út frá sambærilegum svæðum. Þá þarf einnig að reikna með áhrifum snjóþekju, einkum á vormánuðum þegar sólargangur er orðinn langur og dagar oft sólríkir. Þegar þessir þættir eru teknir saman má reikna með að í ljósu, sinugrónu mólendi við Húsavík vegi hlýnunaráhrif vegna breytinga úr mólendi í barrskóg upp loftslagsávinning kolefnisbindingar við skógrækt.

Framkvæmdir Yggdrasils í Saltvík gera því lítið, eða minna en ekkert, til að vega á móti loftslagsvánni og hafa líka margvísleg önnur áhrif, flest neikvæð:

Gengið er á verðmætt vistkerfi með fjölbreyttu lífríki.

Mikilvæg berjalönd eru eyðilögð.

Búsvæði mófugla sem við berum alþjóðlega ábyrgð á eru eyðilögð.

Eðlilega bregðast því margir ókvæða við þessari vanhugsuðu framkvæmd, og engin fagleg vottunarstofa með sjálfsvirðingu getur vottað að þetta brölt muni hafa jákvæð áhrif á umhverfi og loftslag.

Höfundur er lífefnafræðingur og áhugamaður um loftslagsmál. 

Uppfært 19.8.2024 Í upphaflegri útgáfu greinarinnar var möguleg losun við plægingu sögð 800 tonn á hektara og hún sögð hugsanlega meiri en skógur gæti bundið. Það rétta er að samkvæmt skógarkolefnisreikni Skógræktarinnar gæti losun vegna plægingar numið 80 tonnum á hektara, um tíunda hluta þess kolefnis sem skógur gæti bundið.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×