Orkubú Vestfjarða hefur það sem af er ári varið um sjö hundruð milljónum í olíukaup til að keyra dísilvélar á skerðingardögum en á þessu ári hafa skerðingar á raforkuafhendingu numið 104 sólarhringum. Þetta gæti, því sem næst, heyrt sögunni til með samningi sem gerður var við Landsvirkjun í dag. Hörður Arnarson er forstjóri Landsvirkjunar.
„Þetta er mikilvægt skref að taka; að draga úr skerðingum vegna húshitunar. Þetta hefur verið selt í skerðanlegum orkusamningum á mjög lágu verði en nú er Orkuveitan að taka mjög mikilvægt skref að gera samning aum betri gæði á vörunni þannig að þeir eiga að lenda í mun minni skerðingum og styðja þá við þessa orkuskiptavegferð sem þeir eru á,“ segir Hörður.
Þessum samningi er ætlað að brúa bilið á meðan Orkubú Vestfjarða þróar hitaveitur til að nýta þann jarðhita sem fannst í sumar í Tungudal.
Draga verulega úr kolefnisspori Vestfjarða
Elías Jónatansson, forstjóri Orkubús Vestfjarða segir þetta gríðarstórt skref í orkuskiptum á Vestfjörðum.
„Hann mun draga mjög verulega úr kolefnisspori Vestfjarða. Þetta hefur verið langstærsti þátturinn í því undanfarin ár þegar við höfum þurft að brenna olíu. Við nánast hættum að brenna olíu vegna skerðinga hjá Landsvirkjun. Þessi nýi samningur þýðir, ef við berum þetta saman við árið í ár þá höfum við þegar verið skert í 104 sólarhringa. Þessi samningur lágmarkar þennan tíma vegna þess að hámarksskerðing verður 4 sólarhringar,“ sagði Elías Jónatansson, forstjóri Orkubús Vestfjarða.