Haítískir innflytjendur í borginni Springfield í Ohio hafa verið mikið til umfjöllunar vestanhafs eftir að Trump og J.D. Vance, varaforsetaefni hans, tóku upp lygar fjarhægrimanna um að ólöglegir innflytjendur þar stælu og ætu gæludýr annarra borgarbúa.
„Þeir eru að borða gæludýr þeirra sem búa þarna!“ sagði Trump í sjónvarskappræðum við Kamölu Harris á aðfararnótt miðvikudags.
Enginn fótur er fyrir ásökununum og meirihluti þeirra Haítíbúa sem hafa sest að í Springfield eru þar löglega.
Þrátt fyrir það hótaði Trump því að vísa haítískum íbúum borgarinnar úr landi og senda þá til lands sem þeir hafa engin tengsl við þegar hann ræddi við blaðamenn í Los Angeles í dag.
„Við munum standa fyrir miklum brottvísunum frá Springfield í Ohio. Miklar brottvísanir. Við ætlum að koma þessu fólki burt. Við ætlum að senda það aftur til Venesúela,“ sagði fyrrverandi forsetinn sem virtist hafa gleymt því hvaðan fólkið var.
Trump: We will do large deportations from Springfield, Ohio. Large deportations. We're going to get these people out. We’re bringing them back to Venezuela pic.twitter.com/41CdKtcmwq
— Acyn (@Acyn) September 13, 2024
Hugsanlegt er að tveimur lygasögum hafi þar slegið saman í höfði Trump en hann hefur ítrekað logið því að venesúelanskt glæpagengi hafi „tekið yfir“ heila íbúðarblokk í Colorado og þvingað íbúa þar til þess að greiða því leigu. Yfirvöld þar hafa ítrekað að þrátt fyrir að glæpagengi hafi vissulega skotið upp kollinum þar eigi fullyrðingar um að það hafi tekið yfir blokk ekki við rök að styðjast.
„Það verður að hætta“
Borgaryfirvöld og lögreglan í Springfield hefur margítrekað að ekkert sé hæft í fullyrðingum Trump og bandamanna hans um meint gæludýraát haítískra innflytjenda í borginni í vikunni. Þau hafa nú einnig þurft að glíma við röð hótanna sem leiddu meðal annars til þes að þrír skólar voru annað hvort rýmdir eða lokað tímabundið.
Joe Biden Bandaríkjaforseti fordæmdi árásir Trump og félaga á hatítíska innflytjendasamfélagið í dag. Leiðtogar þess hafa sagt ummæli Trump geta stefnt lífi fólks í hættu, að sögn Reuters-fréttastofunnar.
„Þetta verður að hætta, það sem hann er að gera. Það verður að hætta,“ sagði Biden.
Trump hefur boðað stórfelldar brottvísanir fólks sem dvelur ólöglega í Bandaríkjunum nái hann kjöri, jafnvel tugi milljóna manna.