Ökumaður steypubílsins sem ók á Ibrahim hefur stöðu sakbornings. Fjallað var um málið í Kastljósi á RÚV í kvöld og rætt við móður hans, Robinu Uz-Zaman. Ibrahim var á reiðhjóli á bílastæði milli Ásvallalaugar og íþróttahúss Hauka þegar hann varð fyrir steypubíl. Engin vitni urðu að slysinu.
Í viðtalinu segir Robina mikilvægt að reglugerðum er varða umferð vinnubíla á almenningssvæðum sé breytt og að í reglugerðum verði fjallað um að barnasvæði séu bíllaus svæði.
Fjölskyldan hefur stofnað minningarsjóð og almannaheillafélag í nafni Ibrahims sem er ætlað að stuðla að öruggara umhverfi fyrir börn í umferðinni. Í nafni félagsins verður unnið að þessum reglugerðarbreytingum sem og að búinn verði til griðastaður til minningar um Ibrahim.
Gengur fyrir Ibrahim á dánardægri
Í viðtalinu við Kastljós í kvöld greindi móðir hans, Robina, jafnframt frá því að þann 30. október, þegar ár er liðið frá andláti hans, ætli hún að ganga frá Haukasvæðinu við Ásvelli að þeim stað þar sem Ibrahim lést og kveikja á kerti. Hún býður öllum sem vilja að koma með henni. Fram kom í fréttinni að gengið verði af stað klukkan 18. Nánar um minningarsjóðinn hér.