Flogið verður tvisvar í viku frá Newark-flugvelli og lent á hinum nýja alþjóðaflugvelli Grænlendinga, sem fyrirhugað er að opna formlega í næsta mánuði, þann 28. nóvember. Flugtíminn milli New York og Nuuk er um fjórir tímar.

„Ferðamenn munu nú hafa beinan aðgang að norðurslóðaævintýrum á Grænlandi. United verður eina flugfélagið sem tengir Bandaríkin beint við Nuuk, nyrstu höfuðborg heims, sem opnar hlið að háklassa gönguferðum og heillandi dýralífi undir miðnætursól sumarsins.
Beint flug United mun gera Grænland aðgengilegra en nokkru sinni fyrr fyrir bandaríska ferðamenn,“ segir í tilkynningu United Airlines.
„Við erum stolt af því að bjóða United Airlines velkomið til Nuuk. Þessi nýja flugleið er stórt skref í þá átt að gera Grænland aðgengilegra fyrir heiminn – og heiminn aðgengilegri Grænlandi. Við hlökkum til að taka á móti enn fleiri gestum til að upplifa fallega landið okkar,“ er haft eftir Jens Lauridsen, forstjóra Greenland Airports, í tilkynningu flugvallafélags Grænlands.

Nýlega lauk verktakinn Munck Group malbikun síðasta áfangans á 2.200 metra langri flugbrautinni. Núna er unnið að margskyns frágangi áður en hægt verður að taka hana í notkun í fullri lengd. Áður var búið að opna hluta brautarinnar, 930 metra.
„Nokkur minniháttar verkefni bíða enn á og við flugbrautina áður en hægt er að taka hana í notkun 28. nóvember – þegar höfuðborg Grænlands verður í fyrsta sinn mögulegt að taka á móti stærri flugvélum beint frá Evrópu, Ameríku og öðrum heimshlutum,“ segir flugvallafélag Grænlands.