Þetta staðfestir Rósa í samtali við Vísi. Rósa mun að óbreyttu láta af starfi bæjarstjóra Hafnarfjarðar um áramótin þegar Valdimar Víðisson, oddviti Framsóknar í Hafnarfirði, tekur við stöðunni.
Samkvæmt samkomulagi meirihluta Sjálfstæðismanna og Framsóknarmanna í Hafnarfirði munu Rósa og Valdimar eiga stólaskipti um áramótin þannig að Rósa yrði formaður bæjarráðs.
Rósa segist hafa fengið mikla hvatningu til að bjóða sig fram í landsmálin. „Það hefur verið gott að fá þessa hvatningu. Það hefur gengið vel í Hafnarfirði. Ég tók fyrst sæti í bæjarstjórn árið 2006 og varð oddviti Sjálfstæðismanna fyrir tíu árum. Ég tel að ég hafi góða reynslu fram að færa og er að meta stöðuna. Hjartað slær enn í Hafnarfirði og fyrir Hafnarfjörð.“
Hún segir að það þurfi hins vegar að hugsa hratt þessa dagana. „Þetta hefur verið ofsalega gaman og gefandi. Sveitarstjórnarmálin eru mjög skemmtileg en það gæti að sjálfsögðu verið gaman að taka þátt að móta samfélagið og taka þátt á öðrum vettvangi.“
Val á framboðslista Sjálfstæðismanna í Suðvesturkjördæmi mun fara fram á sunnudaginn.