Fæðingarorlof í dag eru 12 mánuðir sem foreldrar deila með sér. Almennt komast börn á leikskóla á höfuðborgarsvæðinu í kringum 14 til 18 mánaða aldur.
Verkefni aðgerðahópsins felst í að vinna að tímasettri áætlun um aðgerðir til að loka umönnunarbilinu á samningstíma gildandi kjarasamninga á almennum vinnumarkaði. Samkvæmt skipunarbréfi skal aðgerðahópurinn skila skýrslu ásamt tillögum eigi síðar en 1. apríl 2025.
Í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu kemur fram að forsætisráðherra hafi í síðustu viku skipað aðgerðahópinn. Hópnum er meðal annars falið að horfa heildstætt á umönnun og menntun barna og skoða hvort þörf sé á kerfisbreytingum til að loka umönnunarbilinu.
Fylgja eftir yfirlýsingu frá 7. mars
Þá kemur einnig fram að hópurinn sé skipaður til að fylgja eftir yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 7. mars síðastliðnum sem birt var í tengslum við undirritun kjarasamninga á almennum vinnumarkaði. Í yfirlýsingunni segir að á samningstíma þeirra verði stefnt að því að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla.
Hópurinn er skipaður fulltrúum forsætisráðuneytis, mennta- og barnamálaráðuneytis, félags- og vinnumarkaðsráðuneytis, innviðaráðuneytis, Samtaka atvinnulífsins, samtaka launafólks (ASÍ, BHM, BSRB og KÍ) og Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Aðgerðahópinn skipa:
Hildur Björnsdóttir, án tilnefningar, formaður
Bjarki Vigfússon, fulltrú forsætisráðuneytis
Hrafnkell Hjörleifsson, fulltrúi mennta- og barnamálaráðuneytis
Steinunn Valdís Óskarsdóttir, fulltrúi félags- og vinnumarkaðsráðuneytis
Steinunn Rögnvaldsdóttir, fulltrúi innviðaráðuneytis
Anna Hrefna Ingimundardóttir, fulltrúi Samtaka atvinnulífsins
Arnaldur Grétarsson, fulltrúi ASÍ
Kolbrún Halldórsdóttir, fulltrúi BHM
Sonja Ýr Þorbergsdóttir, fulltrúi BSRB
Haraldur Freyr Gíslason, fulltrúi KÍ
Heiða Björg Hilmisdóttir, fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga