Skoðun

Læknar á lands­byggðinni

Sigurjón Þórðarson skrifar

Örugg og öflug heilbrigðisþjónusta er grundvallaforsenda fyrir sjálfbærni hinna dreifðu byggða um land allt. Það er jafnframt réttur allra íbúa landsins að hafa heilsugæslu í nærumhverfi sínu enda er það sjálfsagður liður í byggðaþróun.

Árið 2018 var lögð fram skýrsla Ríkisendurskoðunar um Heilsugæslu á landsbyggðinni í kjölfar stjórnsýsluúttektar stofnunarinnar. Í niðurstöðum skýrslunnar kom m.a. fram að grípa verði til markvissra aðgerða til að bregðast við læknaskorti á landsbyggðinni en einnig mikilvægi þess að gengið væri sem fyrst frá heildstæðri heilbrigðisstefnu þar sem þjónusta heilsugæslustöðva á landsbyggðinni yrði skilgreind.

Það er þó staðreynd að gengið hafi brösuglega að tryggja fastráðningu heimilislækna á starfsstöðvum heilbrigðisstofnana víða um land. Þessi mönnunarvandi heilbrigðisþjónustu er ein stærsta áskorun íslensks samfélags. Það er áhugaverð staðreynd sem kom fram í framangreindri skýrslu Ríkisendurskoðunar að rétt rúmlega helmingur stöðugilda heimilislækna á landsbyggðinni er mannaður af fastráðnum læknum en verktakar manna rúmlega fjórðung stöðugilda og um fimmtungur stöðugilda er ekki mannaður.

Eins og kom fram í grein sem birtist í Læknablaðinu árið 2022 þá er fyrirséð að á árinu 2032 verði um 32 fastráðnir læknar komnir á eftirlaun, eða um 33% og að ljóst sé að ef ekkert er gert muni staðan á landsbyggðinni versna þar sem endurnýjunin er ekki nægjanleg.[1] Auk þess er ljóst að sífellt fleiri læknar velji að starfa erlendis í stað þess að flytja heim að námi loknu. Rannsóknir hafa einnig sýnt fram á að fólk vill geta sótt sem mesta heilbrigðisþjónustu í sinni heimabyggð.[2] Mönnunarvanda á Íslandi er svo mætt af ríkisstjórninni með því að draga úr nærþjónustu – fjarheilbrigðisþjónusta er þróuð og heilbrigðisþjónusta flutt í síauknum mæli til höfuðborgarsvæðisins. Flokkur fólksins vill hins vegar tryggja aðgengi að heilbrigðisþjónustu í heimabyggð.

Úti á landi eru heimilislæknar í dagvinnu á virkum dögum og á gæsluvöktum frá lokum starfsdags til næsta morguns.[3] Þá þurfa þeir gjarnan að mæta til vinnu næsta morgun óháð því hvort þeir hafi þurft að sinna útköllum nóttina áður. Slíkt vinnuálag dregur úr vilja lækna til að starfa á landsbyggðinni. Ef tekst að manna stöðugildi lækna á landsbyggðinni með viðhlítandi hætti er mögulegt að hægt verði að draga úr því mikla vinnuálagi sem hefur skapast í þeirri manneklu sem nú ríkir. Yfir 800 íslenskir læknar starfa erlendis og eflaust myndu margir þeirra vilja flytja aftur í sína heimabyggð ef kjör og vinnuaðstæður væru viðunandi.

Það er fullkomlega ljóst að ef ekkert er gert þá muni staðan á landsbyggðinni versna þar sem endurnýjun á fastráðnum læknum er ekki nægjanleg og heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni neyðast til að ráða til sín lækna í verktöku síauknum mæli. Við í Flokki fólksins viljum auka fastráðnum læknum með jákvæðum hvötum.

Sveitarfélög í landsbyggðinni hafa kallað eftir samstarfi við heilbrigðisstofnanir til að tryggja mönnun læknisþjónustu til að koma í veg fyrir að fólk þurfi að ferðast langar vegalengdir til að fá læknisþjónustu. Ljóst er að sveitarfélög í sama landshluta eða héraði geta unnið saman að því að laða til sín lækna og ráða þá í fullt starf. Til þess að auglýst læknisstörf á landsbyggðinni verði eftirsóknarverðari þarf að koma á samstarfi milli heilbrigðisstofnana og sveitarfélaga, en það þarf aðkomu stjórnvalda til að koma á slíku samstarfi með formlegum hætti.

Eins og greint hefur verið að framan þá eru ríkar ástæður til að hafa áhyggjur af þróun læknisþjónustu á landsbyggðinni. Heilbrigðisyfirvöld geta tryggt læknisstörf með góðum launum, samkeppnishæfum vinnuskilyrðum og öðrum hvötum svo að læknar kjósi að starfa á landsbyggðinni.

Af þessari ástæðu lögðum við fram þingsályktunartillögu á síðustu tveimur löggjafarþingum um að heilbrigðisstjórnvöld hefji samstarfsverkefni við valin sveitarfélög á landsbyggðinni með það að markmiði að tryggja að við hverja starfsstöð heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni starfi fastráðnir heimilislæknar. Samstarfsverkefnið gæti orðið fyrirmynd fyrir önnur sveitarfélög á landsbyggðinni og verið í stöðugri þróun.

Höfundur er oddviti Flokks fólksins í Norðausturkjördæmi.


[1] Mönnun lækna á landsbyggðinni. Ingvar Freyr Ingvarsson, Steinunn Þórðardóttir og Súsanna Björg Ástvaldsdóttir. Læknablaðið, 6. tölublað, 108. árangur.

[2] Byggðastefna og heilbrigðisþjónusta. Orri Þór Ormarsson. Læknablaðið, 11. tölublað, 101. árgangur.

[3] Ómannaðar vaktir lækna. Dögg Pálsdóttir. Læknablaðið, 8. tölublað, 109. árgangur.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×