Stefanik settist fyrst á þing árið 2015, þá þrítug, og varð hún yngsta konan til að vera kjörin á þing. Hún þótti upprunalega ekki vera róttækur Repúblikani en í upphafi forsetatíðar Trumps var hún til að mynda andvíg múslimabanninu svokallaða og greiddi atkvæði gegn viðleitni Trumps til að byggja múr á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó.
Afstaða hennar til Trumps hefur þó tekið miklum breytingum í gegnum árin. Hún hefur frá árinu 2021 verið þriðji æðsti þingmaður Repúblikanaflokksins, eftir að Liz Cheney var vikið úr þeirri stöðu.
Áður en hún var kjörin á þing starfaði Stefanik í Hvíta húsinu þegar George W. Bush bjó þar.
Reynsla hennar af utanríkismálum og þjóðaröryggi er ekki mikil, eins og fram kemur í frétt New York Times. Þá hefur Stefanik verið ötull stuðningsmaður Ísrael og tók virkan þátt í nefndarfundum í fulltrúadeildinni sem leiddu til þess að nokkrir skólastjórar háskóla vestanhafs sögðu af sér vegna mótmæla og óeirða á skólalóðum vegna mannskæðrar innrásar og árás Ísraela á Gasaströndina.
Nýr „landamærakeisari“
Þá tilkynnti Trump í morgun að Tom Homan, fyrrverandi yfirmaður innflytjenda- og tolleftirlits Bandaríkjanna (ICE), myndi halda utan um landamæri Bandaríkjanna og vera svokallaður „landamærakeisari“. Þar á meðal væru landamæri Bandaríkjanna og Mexíkó.
Sjá einnig: Trump velur starfsmannastjóra úr innstu röðum
Í frétt Politico segir að tilnefning Homans hafi legið í loftinu en hann er einnig sagður eiga að sjá um umfangsmikinn brottflutning á svokölluðum ólöglegum innflytjendum í Bandaríkjunum í forsetatíð Trumps.

Trump skipaði Homan sem starfandi yfirmann ICE á annarri viku forsetatíðar sinnar. Seinna meir tilnefndi hann svo Homan í embættið en sú tilnefning var aldrei staðfest af þingmönnum öldungadeildarinnar.
Að þessu sinni er búist við því að Homan muni starfa innan veggja Hvíta hússins og stýra landamærunum þaðan í gegnum aðra embættismenn.
Sem yfirmaður ICE stóð Homan meðal annars fyrir aðskilnaði barna frá foreldrum sínum.
Á ársfundi landsnefndar Repúblikanaflokksins í sumar sagði Homan að hann hefði varið 34 árum í að vísa ólöglegum innflytjendum úr landi og að hann hefði skýr skilaboð til þeirra milljóna sem Joe Biden átti að hafa hleypt inn í landið.
„Þið ættuð að byrja að pakka strax. Svo sannarlega. Því þið eruð á leiðinni heim.“