Það er alltaf mikill kraftur í kvenfélagskonum um allt land því þær eru alltaf að vinna að einhverjum skemmtilegum og jákvæðum verkefnum og gefa til samfélagsins. Það kom einmitt fram á landsfundi Kvenfélagasambands Íslands á Ísafirði á dögunum að kvenfélagskonur á Íslandi gáfu um 165 milljónir króna til góðgerðarmála á árununum 2021 til 2023.
En snúum okkur að Kvenfélagi Selfoss, sem var að ljúka við skemmtilegt verkefni en konurnar þar voru að sauma lyfjapoka undir lyfjabox fyrir Apótek Suðurlands á Selfossi, samtals 100 poka, sem voru afhentir nú í vikunni.
„Þetta var bara mjög skemmtilegt verkefni og allt upp í 12 konur, sem hafa tekið þátt,” segir Jórunn Helena Jónsdóttir, formaður Kvenfélags Selfoss.
Sigríður Guðmundsdóttir, kvenfélagskona sá um útfærslu á pokunum.
„Þá fær hver sinn lyfjapoka með sínum fjórum boxum og það eru lyf fyrir einn mánuð. Síðan kemur viðkomandi aftur í apótekið með pokann sinn með tómum boxum og fær fyllt box í sama poka. Þannig að það er ekki þetta endalausa pappírsumbúða bruðl lengur,” segir Sigríður.
Og mikil endurnýting var í gangi við gerð pokanna.
„Ég er nú hrædd um það. Þetta eru gömlu stofugardínurnar okkar, það er allt orðið gardínulaust hér, og gamlir borðdúkar og fataefni, bútasaumsefni og bara nefndu það,” segir Sigríður kát og glöð með verkefnið.

Guðmunda Þorsteinsdóttir einn eigenda Apóteks Suðurlands er hæstánægð með nýju pokana.
„Þetta er fullkomið, mikið fallegir pokar og svo gaman að getað haft þetta líka sem fjáröflun fyrir kvenfélagið og ég vissi að þær hefðu gaman af því að sitja saman og sauma. Við erum alveg í skýjunum yfir þessu,” segir Guðmunda.