Hareide tók við íslenska landsliðinu í apríl 2023 og stýrði því í tuttugu leikjum. Átta þeirra unnust, tveir enduðu með jafntefli og tíu töpuðust.
Samkvæmt tilkynningunni er leit að nýjum þjálfara hafin. Meðal þjálfara sem hafa verið orðaðir við landsliðsþjálfarastarfið má nefna Arnar Gunnlaugsson og Freyr Alexandersson.
„Ég vil byrja á því að þakka Åge fyrir hans góðu störf og óska honum velfarnaðar í framtíðinni. Á tíma hans með liðið hafa margir leikmenn tekið stór skref, leikmenn sem eiga framtíðina fyrir sér með landsliðinu. Við munum vanda til verks næstu vikur og mánuði við leit að nýjum þjálfara,“ er haft eftir Þorvaldi Örlygssyni, formanni KSÍ, í tilkynningu sambandsins.
Hareide stýrði íslenska liðinu í síðasta sinn í 4-1 tapi fyrir Wales í Þjóðadeildinni í síðustu viku. Úrslitin þýddu að Ísland fer í umspil um að halda sér í B-deild Þjóðadeildarinnar. Þar mæta Íslendingar Kósovóum í mars á næsta ári.