Það voru margar hetjur hjá íslenska landsliðinu í þessum magnaða sigri og þeir voru heldur ekki allir inn á vellinum.
Eftir 24 stiga tap á heimavelli þá þurfti eitthvað risastórt til að koma Ítölum úr jafnvægi nú þegar þeir voru komnir á heimavöll og búnir að endurheimta Euroleague stjörnurnar sínar.
Íslenska vörnin í upphafi leiks sló þá ítölsku það rækilega utan undir að þeir voru hálfvankaðir út leikinn. Íslensku strákarnir héldu síðan út, stóðust öll áhlaup ítalska liðsins og fögnuðu einum stærsta sigrinum í sögu íslenska körfuboltalandsliðsins.
Eftir leik kom í ljós að varnarleikurinn var hugmynd og útfærsla aðstoðarþjálfarans Baldurs Ragnarssonar sem lagði mikla og góða vinnu í að lesa Ítalina og koma þeim úr jafnvægi. Íslenska liðið breytti um leikskipulag og vörn frá því í skellinum í Laugardalshöllinni.
Það þarf ekki annað en að skoða stöðuna eftir tíu mínútna leik til að átta sig á áhrifum þessara breytinga.
Íslenska liðið vann fyrsta leikhlutann 22-9 og hélt stórstjörnuliðu Ítala undir tíu stigum á fyrstu tíu mínútum leiksins sem er magnaður árangur á útivelli.
Pedersen, þjálfari íslenska landsliðsins, passaði líka upp á það eftir leik að Baldur fengið hrósið sem hann átti svo sannarlega skilið.
„Aðstoðarþjálfarinn Baldur á risastóran þátt í þessum sigri. Hann setti upp alla vörnina okkar og það var sú vörn sem gaf tóninn í leiknum og upp úr henni fengum við mikið af okkar stigum í fyrri hálfleiknum,“ sagði Craig Pedersen í viðtali við Gunnar Birgisson í útsendingu RÚV.
„Þetta var stórkostleg leikgreining og þjálfun hjá honum,“ sagði Craig. Kanadamaðurinn á einnig hrós skilið fyrir að vekja athygli á mikilvægu framlagi aðstoðarmannsins síns.