Nú er ég ekki viss hvað fellur undir villtara kynlíf í þínum huga. En þegar ég les að þú hefur misst áhugann á hefðbundnu kynlífi dettur mér í hug að þú sért að vísa í kink. Kink er kynferðislegur smekkur sem fellur ekki að normum samfélagsins.
Hvernig við skilgreinum hefðbundið kynlíf og kink getur verið ólíkt milli einstaklinga eða menningarheima en einnig má benda á að kink eru almennt meira samþykkt í dag. Nýlegar rannsóknir sýna að mun fleiri hafa áhuga eða fantasera um kink (45-60%) heldur en þau sem hafa prófað sig áfram á því sviði (20-46.8%). Algengt er að fólk geri eitt og annað sem væri hægt að flokka sem kink en upplifir það ekki endilega sem kink, til dæmis að leika með handjárn eða rassskella.
Kynlífið með Aldísi, sálfræðingi og kynlífsráðgjafa, er nýr vikulegur liður á Vísi. Í honum fræðir Aldís lesendur um kynlíf og svarar spurningum frá lesendum. Ef þú vilt senda Aldísi spurningu er hægt að finna spurningaform neðst í greininni.

Kink fólks geta verið allskonar. Hér er vissulega alls ekki tæmandi listi en kink geta verið bindingar, blæti sem beinast að einstaka líkamspörtum eða hlutum, hlutverkaleikir, að horfa á maka stunda kynlíf með öðrum, það að leika með niðurlægingu, skynjun, völd eða sársauka.
Það er alls ekki óalgengt að annar aðilinn í sambandi hafi áhuga á hefðbundnu kynlífi á meðan hinn aðilinn hafi áhuga á kinki. En hvað gerum við þegar við erum ekki sammála um það kynlíf sem við viljum vera að stunda? Eða þegar við höfum áhuga á því að prófa nýja hluti en erum óviss um hvort maki hafi áhuga á því að prófa með okkur?

- Finnið stað og stund þar sem ykkur líður vel að tala saman.
- Skilgreinið. Hvað er hefðbundið kynlíf og hvað er kink. Reynið að varpa ekki skömm á ólíkan áhuga á kynferðislegum athöfnum. Sýnum því skilning að sum eru meira fyrir kink á meðan önnur tengja ekki við það.
- Þegar þú vilt bjóða maka að prófa eitthvað nýtt með þér er mikilvægt að varpa því fram á þann hátt að þú sért forvitinn um ákveðið kink og viljir athuga hvort maki hafi áhuga á því að prófa þetta með þér. Pössum okkur að pressa ekki!
- Mikilvægt er að hlusta vel á þau svör sem þú færð. Af hverju hefur maki minni áhuga? Eða af hverju hefur áhugi minnkað ef það var áhugi í upphafi sambandsins?
- Það að opna á kink þýðir ekki að hefðbundnu kynlífi verði endilega ýtt til hliðar. Í sambandi þar sem ólíkur áhugi er á kinki, er mikilvægt að gefa ykkur áfram tíma fyrir hefðbundið kynlíf.
- Ef það er áhugi fyrir kinki mæli ég með því að byrja rólega. Það liggur ekkert á. Það er algengt að fólk sé óöruggt þegar það kemur að því að prófa eitthvað nýtt.
- Ýmis námskeið má einnig finna þar sem farið er yfir öryggisatriði, samþykki og tækni. Almennt er mikilvægt að vera örugg í samskiptum, fara vel yfir mörk, hvernig við veitum og drögum samþykki til baka auk þess að þekkja vel hættuna sem getur fylgt vissu kinki.
- Sum pör finna ekki leið til að mæta þessum ólíku þörfum. Þá getur verið gott að tala við kynfræðing eða kynlífsráðgjafa.
- Sum pör fara þá leið að aðilinn sem hefur þörf fyrir kink leiti út fyrir sambandið en það er ekkert eitt sem virkar fyrir öll pör.

Það er í góðu lagi að vera með ólíkan smekk þegar kemur að kynlífi en ef við tölum ekki saman um þarfir okkar og líðan breytist ekkert. Það að hlúa vel að sambandinu er mikilvægt því við höfum tilhneigingu til að draga okkur í hlé þegar okkur finnst ekki vel tekið í tilraunir okkar til að tengjast maka.
Fyrir okkur flest skiptir máli að við getum fyllilega verið við sjálf með maka okkar og að við upplifum það að vera samþykkt eins og við erum. Ef þið ræðið saman og komist að þeirri niðurstöðu að þið eruð ekki að fara að prófa ykkur áfram á þennan hátt getur verið gott að skoða: Hvað þýðir það fyrir sambandið ykkar? Hvernig getið þið mætt ólíkum þörfum ykkar þannig að þið séuð bæði sátt?
Gangi ykkur vel <3