Efling mun samkvæmt þessum aðgerðum til dæmis birta opinberlega nöfn og vörumerki aðildarfyrirtækja SVEIT sem og fara í sérstaka auglýsingaherferð. Þá mun starfsfólk Eflingar einnig fara í heimsóknir á vettvang þar sem þau ætla að upplýsa starfsfólk aðildarfyrirtækja um launakjör og réttindi.
Þá segir að þau muni einnig veita stuðning við mótmæli og aðstoða launafólk, sama hvort það er í Eflingu eða ekki, við að gera launakröfu þar sem þau geta krafist greiðslu í samræmi við löglegan samning Eflingar við Samtök atvinnulífsins.
„Slíkum kröfum verður fylgt eftir fyrir dómstólum og mun Efling birta opinberlega nöfn þeirra fyrirtækja sem svíkja starfsfólk um laun með þessum hætti,“ segir í bréfinu sem forsvarsfólk fékk sent.
Fyrirtækin beðin að láta vita
Í tilkynningu frá Eflingu segir að forsvarsmenn fyrirtækjanna hafi verið beðnir að láta þau vita séu þau ekki lengur aðilar að SVEIT. Þá segir
„Svo sem áður hefur verið greint skilmerkilega frá er Virðing gervistéttarfélag, stýrt af atvinnurekendum úr röðum SVEIT og nánum fjölskyldumeðlimum þeirra, en ekki verkafólki. Svokallaður kjarasamningur milli Virðingar og SVEIT er, fyrir utan að samrýmast ekki ákvæðum íslenskra laga, til þess gerður að skerða réttindi starfsfólks til hagsbóta fyrir atvinnurekendur,“ segir í tilkynningunni.

Efling sendi frá sér tilkynningu fyrir helgi þar sem stéttarfélagið sagði kjarasamning sem Virðing hefur gert við SVEIT ganga gegn ákvæðum fjölda laga og skerða rétt launþega til muna. Formaður félagsins, Sólveig Anna Jónsdóttir, sagði Virðingu gervistéttarfélag og svikamyllu sem væri rekin af atvinnurekendum í því skyni að skerða laun og réttindi starfsfólks.
Fleiri stéttarfélög og samtök launþega hafa síðan tekið undir gagnrýni Eflingar. Í dag sendu BSRB og BHM frá sér sameiginlega yfirlýsingu og síðar Samiðn, samband iðnfélaga, þar sem þau fordæmdu aðför að réttindum launafólks.
Gult stéttarfélag
„Virðing fellur undir skilgreiningu um „gult stéttarfélag“ en slík félög eru stofnuð af atvinnurekendum, stýrt af þeim og starfsmenn þvingaðir til að ganga í þau. Atvinnurekendur gera þannig kjarasamninga við sjálfa sig og ákveða kjör starfsfólks síns einhliða,“ segir í tilkynningu Samiðnar. Þar er svo lýst yfir fullum stuðningi við baráttu Eflingar.