Barcelona, félag Mem á Spáni, staðfesti í gær að hann hefði náð fullri heilsu eftir meiðsli og mun hann því taka þátt á komandi heimsmeistaramóti sem var í hættu.
Það munar um minna fyrir Frakkana en hægri skyttan Mem, sem hefur leikið með spænska stórveldinu Barcelona frá árinu 2016, hefur verið burðarás í franska landsliðinu undanfarin ár. Frakkar eru ríkjandi Evrópumeistarar en hlutu silfur á síðasta heimsmeistaramóti fyrir tveimur árum síðan.
Amazing news for France!
— Rasmus Boysen (@RasmusBoysen92) January 6, 2025
Barca confirm that Dika Mem is ready for the World Championship after his injury!
Furthermore, Elohim Prandi according to @lequipe has been declared fit to resume team training!#handball
Vinstri skyttan Elohim Prandi hefur þá einnig hafið æfingar að fullu eftir að hafa glímt við meiðsli, en sá leikur með PSG í heimalandinu.
Einhver bið verður eftir hægri hornamanninum Yannis Lenne og leikstjórnandanum Kentin Mahé en búist er við að báðir nái heilsu áður en mótið hefst. Mahé lék síðasta leik Gummerbach, undir stjórn Guðjóns Vals Sigurðssonar, í þýsku deildinni en er þó enn á batavegi.
Frakkar eru í C-riðli á HM ásamt Austurríki, Katar og Kúveit og mæta Katar í fyrsta leik 14. janúar í Porec í Króatíu.
Strákarnir okkar í íslenska landsliðinu hefja leik tveimur dögum síðar, 16. janúar næstkomandi, og leika einnig í Króatíu. Fyrsti leikur er við Grænhöfðaeyjar í Zagreb þann daginn áður en Ísland mætir Kúbu 18. janúar og Slóveníu þann tuttugasta.