„Ég get bara sagt takk. Takk.“ segir Hilmar tárvotur þegar hann og Einar Valsson fallast í faðma nú þegar þeir hittust í fyrsta skipti eftir slysið, tæpum 23 árum síðar. Andartökum áður en Einar birtist segir Hilmar að hann hafi oft viljað hitta hann, en þá alltaf hugsað „hvernig í ósköpunum“ hann gæti þakkað fyrir lífgjöfina. Eftir það gengur Einar inn og kemur Hilmari á óvart. Miklar tilfinningar brjótast fram hjá báðum mönnunum.
Hugsaði um að láta öldurnar klára þetta
„Ég hugsaði það oftar en einu sinni og oftar en tvisvar að leyfa öldunum sem voru að koma þarna, hvort ég ætti bara að sleppa og leyfa öldunni að klára þetta,“ segir Hilmar sem var í raun vonlaus um að honum og Þorsteini Ingimarssyni, þá 19 ára, yrði bjargað í ísköldum og miskunnarlausum öldunum.“
Ég man eftir því að Matti sagði: „Jæja strákar, núna er þetta búið. Nú munum við deyja. Hann lagði til að við myndum bara biðja, og ég bað. Ég er ekki mjög trúaður maður en í þetta skiptið bað ég þennan uppi að bjarga mér.
Í nær 20 ár var Hilmar með sektarkennd vegna slyssins – hann kenndi sér um að tveir menn hefðu farist. „Af því að ég skar á vitlausa línu,“ segir hann. „Kannski átti ég frekar að fara en þeir.“
