Ein af ástæðunum fyrir því að við lærum að synda er að hafa færnina til að bjarga okkur ef við lendum í vandræðum í vatni og er ein af mikilvægustu drukknunarforvörnum sem við höfum.
Það gerir okkur, sem elskum að fara í sund, að mikilvægum hluta öryggismenningar á sund – og baðstöðum í landinu. Þegar við förum í sund gerum við það alltaf á eigin ábyrgð, sem framlengist ef við erum með börn með okkur. Ábyrgð okkar snýst um að við treystum okkur til að vera í vatni, að dagsformið okkar sé gott, vera vel nærð, vera meðvituð um að vatn, hiti og kuldi geti haft áhrif á undirliggjandi sjúkdóma eða kvilla. Einnig þýðir það að við treystum okkur til að bera ábyrgð á börnum í sundi og að tryggja að þau séu með nauðsynlegan öryggisbúnað eins og kúta.
Annar mikilvægur hluti af öryggismenningu sund – og baðstaða er starfsfólk þeirra. Allt starfsfólk sund – og baðstaða, allsstaðar á landinu, fer árlega í gegnum sérstaka þjálfun í öryggi, skyndihjálp og björgun í vatni. Auk þess sem laugarverðir þreyta árlega hæfnismat í björgun úr vatni til að hafa réttindi til að starfa sem slíkur og viðhalda réttindum sínum.
Námskeiðin í Öryggi og björgun, sem eru haldin af Rauða krossinum, tryggja að allt starfsfólk hafi þekkingu og hæfni í starfi sínu til að bregðast við neyðartilfellum, auk þess sem laugarverðir hafi sérstaka þekkingu og hæfni í hlutverki, skyldum og ábyrgð sem laugarvörður.
Frumskylda laugarvarða í starfi er að tryggja öryggi gesta á vaktinni sinni. Laugarverðir sinna þessari frumskyldu sinni með eftirliti og skönnun á sínu svæði, tryggja slysavarnir, hafa þekkingu á lögum, reglugerðum og öryggisreglum. Þeir þurfa líka að vera tilbúnir til að bregðast við neyðartilfellum, taka stjórn á aðstæðum og veita skyndihjálp.
Laugarverðir gegna lykilhlutverki sem viðbragðsaðilar fyrir okkur sem njótum þess að fara í sund. Þeir bregðast hratt og fagmannlega við ef óvænt atvik, svo sem veikindi, slys eða hætta á drukknun, kemur upp á meðan við erum í lauginni. Ef einstaklingur lendir í vandræðum í vatni, bera laugarverðir kennsl á aðstæður, virkja neyðaráætlun, bjarga viðkomandi upp úr vatninu og tryggja að hann fái örugga aðhlynningu á laugarbakkanum. Ef þörf krefur hefja þeir endurlífgun til að bjarga lífi.
Með öflugu samstarfi okkar allra í öryggismenningu á sund – og baðstöðum getum við komið í veg fyrir alvarleg atvik eins og drukknun í laugum.
Rauði krossinn er aðili að norrænum og alþjóðlegum samtökum í öryggi og björgun í laugum og vötnum og tryggir að unnið sé samkvæmt nýjustu aðferðum hverju sinni.
350 nýir laugarverðir kláruðu grunnþjálfun Rauða krossins í Öryggi og björgun árið 2024 auk þess sem 1.295 einstaklingar stóðust hæfnismat í björgun og vatni.
Höfundur er teymisstjóri skyndihjálpar hjá Rauða krossinum.