„Samningur Katie rann út í haust þegar að tímabilinu lauk. Svo hafa bara verið í gangi samskipti milli Vals og umboðsmannsins hennar sem endaði með því að það náðist ekki samkomulag um nýjan samning,“ segir Kristján Guðmundsson, einn af tveimur aðalþjálfurum Vals.
„Auðvitað er þetta einn besti leikmaður deildarinnar og þjálfararnir vilja alltaf halda sínum bestu leikmönnum en einhvern veginn þróaðist þetta samtal út í það að enda svona. Að hún verður ekki að spila með Val á næsta tímabili.“
Heimildir Vísis frá því fyrr í dag herma að Katie hafi nú skrifað undir samning hjá Bestu deildar liði Þróttar Reykjavíkur sem gildir til næstu tveggja ára.
Er ekki einkar sárt að sjá á eftir henni til liðs í sömu deild?
„Þetta er bara eins og gengur og gerist í fótboltanum. Leikmenn skipta um lið og hafa sínar forsendur fyrir því líkt og félögin gagnvart þeim leikmönnum sem þau semja við. Kvennaboltinn er að nálgast svolítið annað umhverfi.“
Katie enn allra besti leikmaður Bestu deildarinnar á síðasta tímabili horfin á braut.
Það er stórt skarð að fylla?
„Já en áttum okkur á því að hún rann út á samningi í haust þegar að mótið var búið og hefur því ekki verið á samningi hjá Val í einhverja mánuði. Það er ekki eins og við séum einhvern veginn að skera hana út úr hópnum núna. En núna endanlega stöðvuðust viðræðurnar milli Vals og hennar. Ef hún er að fara í Þrótt þá hefur hún verið að ræða við að lið á sama tíma.
Við þjálfararnir vissum allan tímann hvað væri að gerast í viðræðum Vals og Katie. Við vitum þó ekki nákvæmlega hvernig samskiptin voru, það er bara milli stjórnar og fulltrúa hennar. Við vissum stöðuna allan tímann og fórum alveg yfir það hvernig þetta myndi líta út gagnvart leikmannahópnum og annað.“