Innlent

Tuttugu prósenta launa­hækkun kennara enn í boði

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Heiða Björg Hilmisdóttir er formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Heiða Björg Hilmisdóttir er formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga. Vísir/Arnar

Formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga segir tuttugu prósenta launahækkun kennara enn standa til boða. Hún fundar á morgun með samninganefnd sveitarfélaga.

„Þær fréttir sem ég fékk á föstudaginn á samráðsfundi með sveitarstjórum voru að það eru frekar litlar breytingar,“ segir Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Á morgun verði stjórnarfundur með samninganefnd sveitarfélaga þar sem farið verður yfir nýjustu vendingar í kjaradeilum kennara, ríkis og sveitarfélaga.

Verkföll eru boðuð í leik-, grunn- og framhaldsskólum víða um land en þau fyrstu taka gildi á föstudag. Þá fara fimm framhaldsskólar og tónlistarskóli í verkfall. Verkföll í grunnskólum sveitarfélaga Akraneskaupstaðar, Hveragerðisbæjar og Ölfusi hefjast 3. mars ásamt öllum leikskólum í Kópavogsbæ.

„Ég verð að treysta því að þau vinni öll að því að ná sátt í þessari deilu við þess mikilvægu starfsstétt sem vinnur hjá sveitarfélögunum við að mennta börnin okkar,“ segir Heiða Björg. 

Heiða Björg sagði í byrjun febrúar að kennurum hafi boðist tuttugu prósenta launahækkun en þeir hafi hafnað því. Í staðinn hófst verkfall sem var á endanum dæmt að mestu leiti ólöglegt fyrir Félagsdómi.

Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarafélags Íslands, sagði alrangt að um tuttugu prósenta launahækkun væri að ræða. 

Sjá nánar: Sveitar­fé­lögin leiki sér að pró­sentum til að draga upp aðra mynd

Heiða Björg segir hins vegar að sú tillaga standi enn.

„Við vorum tilbúin að ganga að henni sem þýðir yfir tuttugu prósenta launahækkun. Sú tillaga er enn þá til umræðu skilst mér og engin önnur tillaga komin fram,“ segir hún.

Hún voni að viðræður þokist áfram.

„Það er gríðarlega mikilvægt að leysa þessa deilu,“ segir Heiða Björg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×