Íslenski boltinn

Nýi mark­vörðurinn hjá KA sleit hásin

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jonathan Rasheed (lengst til hægri) náði ekki að spila leik fyrir KA áður en hann meiddist illa.
Jonathan Rasheed (lengst til hægri) náði ekki að spila leik fyrir KA áður en hann meiddist illa. getty/Anders Ylander

Markvörðurinn Jonathan Rasheed, sem gekk til liðs við KA á dögunum, sleit hásin á æfingu hjá bikarmeisturunum. Hann mun því að öllum líkindum missa af öllu næsta tímabili.

Fyrir viku greindi KA frá komu Rasheeds og að hann hefði skrifað undir tveggja ára samning við félagið.

Rasheed átti að veita Steinþóri Má Auðunsson samkeppni um markvarðastöðuna hjá KA. En líklega verður ekkert af því að hann spili með liðinu í sumar því hann sleit hásin á æfingu með því í gær. Sævar Pétursson, framkvæmdastjóri KA, staðfesti þetta í samtali við 433.is.

Hinn 33 ára Rasheed býr yfir mikilli reynslu en hann hefur til að mynda leikið 47 leiki í sænsku úrvalsdeildinni auk fjölda leikja í næstefstu deild í Svíþjóð og Noregi. Á síðasta tímabili lék hann fjórtán leiki með Värnamo í sænsku úrvalsdeildinni.

Rasheed er fæddur í Svíþjóð en er með norskan ríkisborgararétt. Móðir hans er frá Nígeríu en faðirinn frá Noregi.

KA endaði í 7. sæti Bestu deildarinnar á síðasta tímabili og varð bikarmeistari í fyrsta sinn í sögu félagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×