Íslenski boltinn

Gylfi hefur náð sam­komu­lagi við Víking

Valur Páll Eiríksson skrifar
Gylfi Þór er á leið í Víkina.
Gylfi Þór er á leið í Víkina. KSÍ

Gylfi Þór Sigurðsson er á leið til Víkings og hefur náð samkomulagi við félagið. Þetta herma heimildir Vísis.

Líkt og Vísir greindi frá í morgun samþykkti Valur kauptilboð frá bæði Víkingi og Breiðabliki í Gylfa Þór í gærkvöld. Gylfi hefur reynt að fá sig lausan frá Val síðustu daga og varð að ósk sinni í gær.

Samkvæmt heimildum Vísis hefur Gylfi átt í viðræðum við Víking og búinn að samþykkja samningstilboð félagsins.

Skiptin verði að líkindum tilkynnt í vikunni, ef ekki strax í dag.

Ekki náðist í Kára Árnason, yfirmann knattspyrnumála hjá Víkingi, við gerð fréttarinnar.

Leikmenn Víkings eru sem stendur í Grikklandi og undirbúa sig fyrir leik við Panathinaikos í Sambandsdeild Evrópu á fimmtudagskvöld.

Gengið á ýmsu

Ákveðin sápuópera fór af stað í síðustu viku þar sem einstaklingar nátengdir Gylfa láku upplýsingum ýmist til fjölmiðla og hlaðvarpsstjórnenda með það fyrir augum að knýja fram skipti.

Valsmenn tóku svo ákvörðun eftir leik Vals við ÍA um helgina, þar sem Gylfi bar fyrirliðabandið, að gefa eftir þrýstingnum og leyfa honum að fara.

Eftir samningsviðræður um helgina og í gær samþykkti Valur tilboð frá bæði Breiðabliki og Víkingi.

Margar sögur hafa farið af kaupverði en Vísir greindi frá því um helgina að Valsmenn hafi hafnað 6,5 milljón króna boði í Gylfa en tilboðin sem Valsmenn samþykktu í gær eru að líkindum hærri en 15 milljónir. Fótbolti.net segir upphæðina nærri 20 milljónum.

Gylfi Þór skoraði ellefu mörk í 19 leikjum fyrir Val í Bestu deildinni síðasta sumar og Valur hafnaði í þriðja sæti deildarinnar. Gylfi verður 36 ára í september.


Tengdar fréttir

Víkingar með lægra tilboð en „grín“ í Gylfa

Á milli þess sem að Víkingar einbeita sér að einvíginu við Panathinaikos í Sambandsdeild Evrópu í fótbolta þá lögðu þeir í gærkvöld fram tilboð í Gylfa Þór Sigurðsson, markahæsta landsliðsmann Íslands frá upphafi. Tilboðið er þó lægra en það sem Víkingar gerðu eftir síðasta tímabil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×