Þetta er síðasti malarkaflinn á norðausturhringnum svokallaða. Þegar verkinu lýkur verður hægt að aka á samfelldu bundnu slitlagi hringleið sem markast af Húsavík, Ásbyrgi, Þórshöfn, Vopnafirði og Mývatnssveit. Holóttir malarkaflar ættu því ekki lengur að fæla ferðalanga á leið um hringveginn frá því að velja norðausturleiðina um Langanes í stað Möðrudalsöræfa.

Vegarkaflinn sem byggja á upp er 7,6 kílómetra langur. Hann nær frá gatnamótum Langanesvegar við Þórshöfn og að Vatnadal á Brekknaheiði, ofan Gunnólfsvíkur í Finnafirði. Frestur til að skila inn tilboðum rennur út þriðjudaginn 4. mars næstkomandi, samkvæmt útboðsauglýsingu.
Þetta er eitt af þeim verkum sem til stóð að bjóða út í fyrra en lentu þá í salti sökum þess að Vegagerðin og innviðaráðuneytið ráðstöfuðu miklum fjármunum í Hornafjarðarfljót án fjárheimilda Alþingis. Af þeim sökum treysti stjórnarmeirihlutinn í umhverfis- og samgöngunefnd þingsins sér ekki til að afgreiða samgönguáætlun síðastliðið vor.

Loforð stjórnvalda um að ljúka þessari vegagerð eru þó mun eldri. Þannig rifjaði þáverandi sveitarstjóri Langanesbyggðar, Jónas Egilsson, það upp í viðtali á Stöð 2 sumarið 2021 að því hafi verið lofað árið 2006 þegar byggðirnar Þórshöfn og Bakkafjörður sameinuðust í Langanesbyggð. Stór áfangi náðist árið 2021 þegar ríflega tuttugu kílómetrar slitlags bættust við, eins og fjallað var um hér:
Með samgönguáætlun sem samþykkt var í febrúar 2019 markaði Alþingi loksins þá stefnu að Norðausturvegur skyldi kláraður. Þá var miðað við að verkinu skyldi ljúka árið 2025, eins og þáverandi sveitarstjóri, Elías Pétursson, gladdist yfir í þessari frétt: