ÍBV mætti á Domusnovavöllinn í Efra Breiðholti og vann 3-2 endurkomusigur. Þetta var fyrsti sigur Eyjamanna í keppninni eftir tap í fyrstu tveimur leikjum sínum. Leiknir hefur enn ekki unnið leik í keppninni.
Breki Baxter kom inn á sem varamaður á 64. mínútu og skoraði sigurmarkið sextán mínútum síðar.
Þetta var mjög viðburðaríkur leikur fyrir Leiknismanninn Sindra Björnsson. Sindri kom Leikni í 2-0 í fyrri hálfleiknum en fékk svo að líta rauða spjaldið í þeim síðari.
Mörk Sindra komu á 10. og 32. mínútu en það seinna kom úr víti. Oliver Heiðarsson og Alex Freyr Hilmarsson jöfnuðu metin með mörkum á 51. og 57. mínútu.
Sindri fékk sitt annað gula spjald á 82. mínútu en hann fékk það fyrra átta mínútum fyrr.
Það var enn jafnt í liðum þegar sigurmarkið kom en Leiknismenn náðu ekki að jafna metin manni færri.