Íslendingar unnu Tyrki með tólf stigum, 83-71, í lokaleik sínum í undankeppni EM 2025 í gær. Með sigrinum komst Ísland í þriðja sinn í lokakeppni Evrópumótsins.
Martin var stigahæstur í íslenska liðinu í leiknum í gær með 23 stig. Hann tók einnig þrjú fráköst og gaf fjórar stoðsendingar. Elvar skoraði þrettán stig, tók fjögur fráköst og gaf fimm stoðsendingar.
Elvar og Martin eru jafnaldrar, fæddir 1994, og hafa verið miklir vinir nánast frá því þeir voru í vöggu. Feður þeirra, Friðrik Ragnarsson og Hermann Hauksson, léku saman með landsliðinu og Njarðvík á sínum tíma.
Christos Lazarou er umboðsmaður þeirra Elvars og Martins og eftir leikinn birti hann skemmtilegar myndir af vinunum undir yfirskriftinni: Hvernig þetta byrjaði, hvernig þetta gengur.
Á fyrri myndinni eru Elvar og Martin barnungir en sú seinni er frá leiknum í Höllinni í gær og sýnir þá fagna EM-sætinu.
How it started: How it’s going:@hermannsson15 @ElvarFridriks pic.twitter.com/W9z9VRbYNf
— Christos Lazarou (@ChristosLazarou) February 23, 2025
Martin er á leið á sitt þriðja Evrópumót en hann var með 2015 og 2017. Elvar lék á EM 2017.
Dregið verður í riðla fyrir EM 2025 þann 27. mars næstkomandi.