Ásthildur Lóa Þórsdóttir, mennta- og barnamálaráðherra, segist hafa upplifað mikla gleði og djúpan létti þegar henni barst til eyrna að Kennarasamband Íslands hefði skrifað undir kjarasamning til fjögurra ára við ríki og sveitarfélög.
Í spilaranum hér að neðan er hægt að horfa á viðtal við Ásthildi Lóu Þórsdóttur, menntamálaráðherra, en í klippunni er frétt um nýgerða kjarasamninga og viðtal í setti við formann Sambands íslenskra sveitarfélaga. Viðtalið við menntamálaráðherra hefst á mínútu 4:41.
„Kennarar eru náttúrulega bara í framlínu farsældar fyrir börn á Íslandi. Þeir spila svo stórt hlutverk í þjóðfélaginu. Það skiptir öllu máli að kennarastéttin, það sé jafnvægi þar og að kennarar séu sáttir og að þeim líði vel í starfi og ég vona það innilega að þessir samningar leiði til þess að það myndist aftur traust á milli kennara og yfirvalda.“
Þurfi að hafa jafnvel tvo kennara í stofu
Í gær steig grunnskólakennari fram sem sagði upp á dögunum og greindi frá reynslu sinni af kennslustarfi sem spannar rúma tvo áratugi. Starfið hafi tekið stakkaskiptum á tímabilinu og að farið hafi að halla undan fæti þegar rekstur grunnskólanna var færður sveitarfélögum. Þörfin fyrir aukinni sérfræðiaðstoð við börn í skólastofunni sé knýjandi. Þannig séu launakjör eitt en starfsaðstæður annað.
„Ég held að hluti af því hvernig kennurum hefur liðið sé að þeim hefur ekki þótt vera metið við sig hversu miklum breytingum starfið hefur tekið á undanförnum árum og hversu mikið álagið er; þegar það koma ný börn inn í bekk, jafnvel nokkrum sinnum í mánuði, og þú ert með fjögur fimm og jafnvel fleiri tungumál sem eru töluð inn í bekknum og þá skapast gríðarlega mikið álag.“
„Ég held að við þurfum að grípa betur inn í þetta, við erum náttúrulega að vinna með farsældina, eins og hún heitir, sem er til þess að grípa snemma inn í og kennarar þurfa að hafa tæki til að grípa snemma inn í, þeir þurfa að fá aðstoð. Ég hef sagt að það þurfi að fjölga kennurum og jafnvel í sumum bekkjum að hafa tvo kennara, þannig að hægt sé að grípa inn í og hjálpa börnum og létta álagin af kennurum. Til þess að þeir hreinlega brenni ekki út,“ segir Ásthildur Lóa.