Íslenski boltinn

Í skýjunum með að hreppa Þór­dísi Hrönn

Sindri Sverrisson skrifar
Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir mundar pennann og skrifar undir samning við Víkinga.
Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir mundar pennann og skrifar undir samning við Víkinga. Víkingur

Knattspyrnukonan Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir er gengin í raðir Víkings sem þar með verður sjöunda íslenska félagið sem hún spilar fyrir. Víkingar eru í skýjunum enda Þórdís reynslumikill og öflugur leikmaður sem unnið hefur titla með þremur þessara liða.

Þórdís lék með yngri flokkum FH og Breiðabliks og hóf meistaraflokksferilinn með Blikum fyrir fimmtán árum. Hún lék einnig með Stjörnunni, Þór/KA, KR og aftur með Breiðabliki áður en hún kom til Vals þar sem hún spilaði síðast. Þá hefur hún einnig leikið með Alta og Kristianstad í Svíþjóð og með Apollon á Kýpur.

Alls hefur Þórdís, sem er sóknarsinnaður miðjumaður, skorað þrjátíu mörk í 149 leikjum í efstu deild hér á landi. Hún skoraði til að mynda sjö mörk í deild og bikar árið 2022 þegar Valur varð bæði Íslands- og bikarmeistari.

Hún spilaði hins vegar ekkert árið 2023 eftir að hafa slitið krossband í hné en kom við sögu í samtals ellefu leikjum með bikarmeisturum Vals í fyrra.

John Andrews er hæstánægður með að Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir verði með Víkingum í Bestu deildinni í sumar.Víkingur

Þórdís, sem er 31 árs gömul, á að baki 2 A-landsleiki og 29 leiki fyrir yngri landslið Íslands en í þeim skoraði hún sjö mörk.

„Þórdís er frábær fótboltamaður og er með töfra í fótunum, það er bara þannig. Við erum í skýjunum með að hafa fengið hana í hópinn okkar,“ segir John Andrews, þjálfari Víkinga, á vef félagsins.

„Við höfum þekkst lengi og hún er leikmaður sem ég hef alltaf dáðst að og borið virðingu fyrir. Það eru til nokkrar tegundir af leiðtogum og á sinn hátt er Þórdís frábært dæmi um leikmann sem setur gott fordæmi fyrir öll sem í kringum hana eru. Jákvæð orka hennar og baráttuvilji er smitandi og hún er strax búin að mynda sterk tengsl í hópnum,“ segir John.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×