Umræddir aðskilnaðarsinnar kallast Balochistan Liberation Army eða BLA og hafa barist fyrir frelsi frá yfirvöldum í Islamabad. Héraðið er ríkt af náttúruauðlindum eins og olíu og góðmálmum en er mjög strjálbýlt.
Íbúar héraðsins segjast verða fyrir mismunun af höndum yfirvalda í Pakistan.
Aðskilnaðarsinnar BLA segjast hafa sprengt upp lestarteinana og þannig þvingað lestina af sporinu áður en þeir réðust á hana. Ellefu hermenn féllu í árásinni og hefur einn dróni verið skotinn niður, samkvæmt BLA.
Þeir segja að 182 farþegar lestarinnar, af á fimmta hundrað farþegum, hafi verið teknir í gíslingu og þar á meðal séu hermenn og meðlimir annarra öryggissveita.
Aðskilnaðarsinnarnir segjast hafa sleppt konum og börnum, auk innfæddra manna frá Balochistan úr lestinni. Þeir segja einnig að her Pakistan hafi gert loftárásir á þá eftir árásina og verði þeim ekki hætt muni þeir taka gísla af lífi.
Gíslatakan hefur ekki verið staðfest af yfirvöldum. Fregnir hafa borist af því að her Pakistan sé að senda liðsauka á svæðið.