Innlent

Tveir kaflar að Látra­bjargi lag­færðir fyrir almyrkvann

Kristján Már Unnarsson skrifar
Malbikið nær núna langleiðina að Patreksfjarðarflugvelli, skammt vestur fyrir bæinn Hvalsker.
Malbikið nær núna langleiðina að Patreksfjarðarflugvelli, skammt vestur fyrir bæinn Hvalsker. Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.

Almyrkvi á sólu, sem verður á jörðinni þann 12. ágúst á næsta ári, mun vara lengst á Látrabjargi. Þetta er ástæða þess að hótelrými á sunnanverðum Vestfjörðum er fyrir löngu uppselt í kringum þennan dag og þar er búist við umferðaröngþveiti.

Í fréttum Stöðvar 2 var sýnt hvar á jörðinni menn verða svo heppnir að upplifa almyrkvann. Þeir þykja vera ein tilkomumesta sýning náttúrunnar þegar myrkur verður um miðjan dag. Þessi almyrkvi mun sjást á mjórri rönd sem liggur um Grænland, Ísland, Atlantshaf, Portúgal, norðanverðan Spán og að eyjunni Mallorca.

Almyrkvinn mun sjást á Íslandi, Grænlandi og á Spáni.Grafík/Hjalti Freyr Ragnarsson

Síðast sást almyrkvi á Íslandi 30. júní árið 1954, en bara syðst á landinu, varði lengst í Mýrdal og Vestmannaeyjum. En það er til marks um hvað þetta er sjaldgæft fyrirbæri að síðast sást almyrkvi í Reykjavík árið 1433, fyrir næstum sexhundruð árum, og næsti almyrkvi í Reykjavík verður árið 2245, eftir 220 ár.

Sólmyrkvinn á næsta ári verður síðdegis þann 12. ágúst. Hann sést sem deildarmyrkvi allstaðar á Íslandi en bara sem almyrkvi vestast landinu og mislengi eftir stöðum. Til dæmis á Lækjartorgi í Reykjavík í 59 sekúndur en í Mosfellsbæ í 30 sekúndur en lengur á Suðurnesjum; í Sandgerði til dæmis í 1 mínútur og 45 sekúndur.

Almyrkvinn 12. ágúst á næsta ári. Hann mun sjást á vestasta hluta Íslands en mislengi eftir stöðum. Deildarmyrkvi mun sjást á öllu landinu.Grafík/Hjalti Freyr Ragnarsson

En það eru utanvert Snæfellsnes og Vestfirðir sem eru mest spennandi. Í Ólafsvík sést almyrkvinn í tvær mínútur og þrjár sekúndur, á Ísafirði í eina mínútu og 31 sekúndu en á Látrabjargi mun almyrkvinn standa yfir í tvær mínútur og þrettán sekúndur.

Það er því búist við því að Bjargtangar, vestasti oddi Íslands, verði heitasti staðurinn á Íslandi þann 12. ágúst á næsta ári. Og vonandi að mannfjöldinn fari varlega á brún 440 metra hás Látrabjargsins þegar þar verður myrkur.

Fá Bjargtöngum, vestasta odda Íslands.KMU

Og sennilega verða fleiri ferðamenn á jörðinni Látrum en þar hafa nokkurn tímann sést áður en þetta gamla eyðiþorp er núna sumarhúsabyggð.

En mesta áskorunin verður vegurinn út á Látrabjarg og hann er vægast sagt vondur. Þetta er malarvegur, mjór og holóttur. Átta ár eru liðin frá því síðast var lagt bundið á hluta vegarins um sunnaverðan Patreksfjörð. Þarna er ennþá 35 kílómetra langur malarvegur í átt að Látrabjargi.

Vegarkaflarnir tveir sem verða lagðir bundnu slitlagi. Þeir eru alls um sex kílómetra langir.Grafík/Hjalti Freyr Ragnarsson

En núna er Vegagerðin búin að bjóða út endurbætur og lagningu bundins slitlags á tvo kafla Örlygshafnarvegar. Við Látra koma nærri tveir kílómetrar slitlags og síðan einnig fjórir kílómetrar við Sauðlauksdal. Þessum endurbótum á að ljúka þann 10. ágúst á næsta ári, tveimur dögum fyrir almyrkvann. En þá verða samt ennþá 29 kílómetra eftir ómalbikaðir.


Tengdar fréttir

Varar við glötuðum tækifærum í kringum al­myrkvann á næsta ári

Hætta er á að Íslendingar missi af meiriháttar tækifæri með því að gera ekki ráðstafanir til þess að taka við ferðamönnum þegar almyrkvi á sólu sést hér á næsta ári, að mati fjármálaráðgjafa. Gistipláss og bílaleigubílar séu þegar fullbókaðir en lítið beri á undirbúningi fyrir aðsóknina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×