Sigrún Ósk Steinarsdóttir er rúmlega tvítug ung kona sem hefur verið þátttakandi í starfi Janusar endurhæfingar í eitt ár og segir það hafa breytt lífi sínu. Hún segir þátttakendur kvíða framhaldinu sem vita ekki hvað tekur við þegar Janus endurhæfing lokar þann 1. júní. Janus hefur veitt geðheilbrigðisþjónustu fyrir ungt fólk með fjölþættan vanda á aldrinum 18-30 ára.
Fjallað var um málið í fréttum Stöðvar 2 í kvöld þar sem einnig var rætt við aðstandendur ungmennis.
„Það hefur náttúrlega verið stór hluti af lífinu mínu að komast aftur í samfélagið og Janus hefur virkilega hjálpað með það. Þetta hefur náttúrlega verið erfitt en örugglega besti hlutur sem ég hef gert. Það væri bara skömm að því að loka þessu og gefa ekki öðrum séns á að fá hjálpina sem þau þurfa. Að komast úr holunni sem við öll í Janus vorum í,“ segir Sigrún Ósk.
Skorar á stjórnvöld með undirskriftalista
Sigrún Ósk setti af stað undirskriftasöfun undir nafninu Áskorun til stjórnvalda að loka ekki Janus endurhæfingu. Rúmlega átján hundruð manns hafa þegar skrifað undir. Hún segist hafa viljað vera rödd þeirra sem enn bíða þjónustu.

„Ég ákvað að setja af stað undirskriftalista til þess að bara ekki loka, náttúrlega þetta hefur svo mikil áhrif á þátttakendur og bara þátttakendur á biðlista. Það er ekkert úrræði eins og Janus. Við viljum ekki loka því og við viljum gefa öllum séns á að fá sömu aðstoð og við fengum, með því að halda Janusi áfram. Þetta var það mesta sem ég gat gert á þessum tíma,“ heldur Sigrún Ósk áfram.
Sigrún segir það mikilvægt fyrir fólk í hennar stöðu að þjónusta sem hún þurfi að sækja sé öll á sama stað. Hún segist hafa sótt þjónustu VIRK áður sem hafi ekki verið með eins gott utanumhald og sú þjónusta sem hún hefur fengið hjá Janusi undanfarið ár.
„Þá var ég með sálfræðing niðri í bæ og iðjuþjálfinn var í Hafnarfirðinum. Það er mjög erfitt að fara á marga staði og hitta margt fók, hérna er bara allt á einum stað, sálfræðingar, geðlæknir, iðjuþjálfar, tengiliðir, fólk sem þú ert í samvinnu með, það er allt hérna,“ segir Sigrún sem kvíðir lokun Janusar.

Sigrún segist hafa verið hætt að sinna sínum áhugamálum en hjá Janusi hafi hún aftur fundið neistann og hyggst nú fara í myndlistarnám eða húsgagnasmíði. Hjá Janusi hefur hún einbeitt sér að því að gera tækifæriskort, jólakort og afmæliskort. Þá hefur hún einnig verið í tálgun hjá Janusi endurhæfingu sem hefur kveikt áhuga hennar á því að fara í húsgagnasmíði.
„En áður en ég kom hingað þá var ég hætt öllu.“
Aðspurð um hvað hún telji að taki við segir hún að það ríki mikil óvissa.
„Það er þessi hræðsla. Ég er búin að vera áður hjá VIRK og það virkaði ekki. Ég er hrædd um að það muni ekki virka aftur og að ég fari aftur á sama stað og var á áður en ég kom hingað. Ég held að það sé eins hjá mörgum. Vonandi þarf það ekki að gerast.“