Innlent

Mikið af gögnum sem þarf að yfir­fara

Jón Þór Stefánsson og Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifa
Sex eru í haldi lögreglu.
Sex eru í haldi lögreglu.

„Það er hægt og bítandi að koma mynd á málið, en náttúrulega heilmikil vinna eftir og mikið af gögnum sem á eftir að yfirfara,“ segir Jón Gunnar Þórhallsson, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi, um rannsókn á andláti karlmanns, sem fannst látinn í Gufunesi síðastliðinn þriðjudag.

„Það eru sex í gæsluvarðhaldi. Við erum núna bara í skýrslutökum og yfirferð gagna,“ segir Jón Gunnar.

Hafið þið náð öllum sem þið teljið að tengist þessu máli?

„Það er eitthvað sem við getum ekki komið inná á þessu stigi.“

Greint hefur verið frá því að á meðal þess sem lögreglan hefur til rannsóknar sé fjárkúgun. Jón segist ekki geta greint frá því hvers eðlis hún mun hafa verið.

Líkt og greint hefur verið frá fannst karlmaðurinn, sem er á sjötugsaldri, þungt haldinn á göngustíg í Gufunesi snemma á þriðjudagsmorgun og lést stuttu eftir komu á spítala. Lögregla hóf leit að manninum kvöldið áður eftir tilkynningu um að hann hafi horfið af heimili sínu og að óttast væri um hann.

Lögreglan hefur greint frá því að til rannsóknar sé meint manndráp, frelsisvipting og fjárkúgun.

Þá hefur verið greint frá því að hinir grunuðu í málinu hafi tengsl við svokallaða tálbeituhópa, en lögreglan hefur ekki viljað tjá sig um það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×