Erlent

Stefna á víð­tækar ferðatakmarkanir

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Í fyrri forsetatíð Donalds Trump setti hann einnig ferðatakmarkanir.
Í fyrri forsetatíð Donalds Trump setti hann einnig ferðatakmarkanir. AP

Stjórn Donalds Trump, forseta Bandaríkjanna, stefnir á að gefa út víðtækar ferðatakmarkanir fyrir ríkisborgara 43 landa. Löndunum er skipt í þrjú stig en ríkisborgum ellefu landa verður alfarið bannað að ferðast til Bandaríkjanna.

Þann 20. janúar gaf Trump út framkvæmdarskipun um að þingmenn ættu að búa til lista yfir lönd sem sæta ættu ferðatakmörkunum. 

Ónefndir embættismenn í umfjöllun New York Times sögðu starfsmenn utanríkisráðuneytisins hafa gert listann en hann myndi líklega breytast að einhverju leiti þegar fulltrúar Hvíta hússins hefðu farið yfir listann. Þetta er því ekki lokaútgáfa listans.

Á rauða listanum svokallaða eru ellefu lönd en ríkisborgurum þeirra er óheimilt að koma til landsins. Á listanum eru Afganistan, Bútan, Kúba, Íran, Líbía, Norður-Kórea, Sómalía, Súdan, Sýrland, Venesúela og Jemen.

Þar á eftir er appelsínuguli listinn en á honum eru tíu lönd. Ríkisborgarar Hvíta-Rússlands, Erítrea, Haítí, Laos, Mjanmar, Pakistan, Rússlands, Síerra Leóna, Suður-Súdan og Túrkmenistan hafa takmarkaðan aðgang að Bandaríkjunum og þurfa að fara í sérstakt viðtal til að fá vegabréfsáritun.

Áhrifamiklir viðskiptamenn frá appelsínugulu löndunum mættu ferðast til Bandaríkjanna en ríkisborgarar með vegabréfsáritun fyrir ferðalög eða innflytjendur mættu það ekki.

Að lokum er það guli listinn, þar sem 22 lönd eru en þau lönd fá sextíu daga til að laga ákveðna vankanta samkvæmt Bandaríkjastjórn. Vankantarnir eru sem dæmi að deila ekki upplýsingum með Bandaríkjunum um ferðalanga á leið til þeirra, ófullnægjandi öryggi við útgáfu vegabréfa og sölu á ríkisborgararétti til landa á rauða listanum. Ef löndin 22 fylgja ekki þessum tilmælum gætu þau verið færð á rauða eða appelsínugula listann.

Þessi 22 lönd eru Angóla, Antígva og Barbúda, Benín, Búrkína Fasó, Kambódía, Kamerún, Grænhöfðaeyjar, Tjad, Lýðstjórnarlýðveldið Kongó, Lýðveldið Kongó, Dómíníka, Miðbaugs-Gínea, Gambía, Líbería, Malaví, Malí, Máritanía, Sankti Kristófer og Nevis, Sankti Lúsía, Saó Tóme og Prinsípe, Vanúatú og Simbabve.

Í fyrri tíð sinni sem forseti Bandaríkjanna setti Trump álíka ferðatakmarkanir, til að mynda fyrir ríkisborgara Írans, Írak, Sómalíu, Súdan, Sýrlands og Jemen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×