Áður en Gunnlaugur Árni fór að gera sig gildandi höfðu Gísli Sveinbergsson og Guðrún Brá Björgvinsdóttir náð bestum árangri Íslendinga á heimslista áhugakylfinga, með því að komast í 99. sæti.
Gunnlaugur Árni hefur skotist upp listann með frábærum árangri á sínum fyrsta vetri í bandaríska háskólagolfinu, með liði LSU Tigers frá Louisiana State háskólanum.
Upp um 1.058 sæti á einu ári
Hann hækkar um tuttugu sæti á milli vikna á nýjasta listanum eftir að hafa hafnað í 3. sæti á afar sterku áhugamannamóti í Kaliforníu, Pauma Valley Invitational, en styrkleiki mótsins var 951 af 1.000 mögulegum sem er hæsta gildi í áhugamannamótum.
Lið Gunnlaugs Árna vann liðakeppnina á mótinu. Áður hefur Gunnlaugur Árni náð að vinna eitt mót í vetur, verða í 2. sæti á öðru móti og nú í 3. sæti á tveimur mótum.
Alls hefur Gunnlaugur Árni hækkað um 1.058 sæti á heimslistanum á einu ári og hann er nú í 7. sæti á meðal bestu áhugakylfinga Evrópu en í 11. sæti yfir bestu háskólakylfingana, samkvæmt frétt golf.is, sem nýliði.